Takmarka umferð um Dyrhólaey

Talið er að með stýringu á umferð ferðamanna eigi fuglavarp …
Talið er að með stýringu á umferð ferðamanna eigi fuglavarp að geta þrifist í eynni. Mynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur tekið þá ákvörðun að takmarka umferð um Dyrhólaey frá 8. maí til 25. júní á milli klukkan 9:00 og 19:00. Þá verður umferð almennings einvörðungu heimil um Lágey og Háey eftir merktum göngustígum og akvegum. Á næturnar er friðlandið lokað frá klukkan 19:00 til 9:00, en frá 25. júní verður það opið allan sólarhringinn. Þessi ákvörðun er tekin í kjölfar skýrslu fuglafræðings á árlegri athugun á stöðu fuglalífi í Dyrhólaey og með tilliti til verndunar fuglalífs á varptíma.

Í skýrslunni kemur fram að varp sumra fuglategunda hafi verið lítið miðað við könnun sem gerð var árið 1999, sérstaklega hvað varðar æðarfugl, kríu og sílamáf. Árið 2012 sáust 246 æðarhreiður í Dyrhólaey, en ári síðar sáust aðeins um 120 hreiður og árið 2014 voru þau 130. Árið 2016 voru þau hins vegar komin upp í 160. Með stýringu á umferð manna frá viðkvæmustu stöðum ætti fuglavarp, þar með talið æðarvarp að geta þrifist í eynni, þó ferðamenn fari þar um, að segir í skýrslunni.

„Leggja þarf mikla áherslu á eyðingu refa og minka, hlúa vel að æðarvarpi þar sem það er þéttast fyrir og nýtur verndar. Næturlokun Dyrhólaeyjar á varptíma þegar landvörður er ekki að störfum líkt og verið hefur undanfarin ár er æskileg og ætti að stuðla að því að truflun af völdum ferðamanna haldist í lágmarki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka