„Myndbandið er með miklum ólíkindum enda verkalýðsbarátta verkafólks töluð niður,“ segir stjórn og trúnaðarráð Framsýnar, stéttarfélags, í yfirlýsingu þar sem upphafsmyndbandi í nýrri auglýsingaherferð Alþýðusambands Íslands er fordæmt.
Framsýn segir það vekja furðu að stærstu heildarsamtök launafólks á Íslandi vari við verkföllum. Félagið telur röksemdafærslu Alþýðusambandsins um hógværar launahækkanir og aukinn kaupmátt „til háborinnar skammar,“ og fullyrðir að þvert á rök Alþýðusambandsins „hefur barátta verkafólks skilað almenningi í landinu hvað mestum sigrum, jafnvel með vopnaskaki sem felst í samstöðu fólksins.“
Framsýn krefst þess í yfirlýsingunni að umrætt myndband verði tekið tafarlaust úr dreifingu og segir myndbandið vera kaldar kveðjur frá sambandinu til aðildarfélaga sinna í aðdraganda kjarasamninga. Að mati félagsins virðist Alþýðusamband Íslands „ætla að stefna áfram á mið misskiptingar, óréttlætis og ójöfnuðar með því að tala fyrir samræmdri láglaunastefnu.“