Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock Café á Íslandi, segir að krafan um að kvenkyns starfsmenn Hard Rock klæðist kjólum komi frá stjórnendum Hard Rock að utan.
Starfsmenn Hard Rock Café í Reykjavík leituðu til Eflingar í gær vegna breytinga á reglum fyrirtækisins um klæðaburð kvenna á vinnustaðnum. Hingað til hafa konur á vinnustaðnum klæðst skyrtum og buxum, líkt og karlar, en nú fer fyrirtækið fram á að þær klæðist kjólum í stað skyrtna og buxna.
„Eflingu verður svarað á föstudaginn og vonandi klárast þetta þá, þá verða öll svör komin og allt á hreinu,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.
Stefán segir að um sé að ræða vinnureglur og að staðurinn þurfi að fara eftir þeim líkt og gert hefur verið frá því að Hard Rock opnaði á ný á Íslandi í október 2016.
„Ég mun taka viðtöl við þá sem vilja tala við mig á föstudaginn, þá verður þetta allt komið á hreint,“ segir Stefán, sem gat ekki sagt til um hvort til greina komi að hætta við að nota kjólana. „Það fer allt eftir þeim úti.“