Sökuðu meirihlutann um halda málum í gíslingu

mbl.is/Eggert

Stjórnarandstöðuþingmenn fjölmenntu í ræðustól Alþingis á þingfundi í dag og sökuðu stjórnarmeirihlutann um að halda málum í gíslingu í þingnefndum. Sögðu þeir stöðuna sýna að samstaða ríkisstjórnarflokkanna væri minni en þeir vildu meina.

Voru stjórnarliðar bæði sakaðir um að hindra að þingmál frá stjórnarandstöðunni, og í sumum tilfellum stjórnarmál, kæmust í gegnum. Þetta væri sérstaklega slæmt í velferðarnefnd Alþingis en einnig var rætt um umhverfis- og samgöngunefnd í því sambandi.

Var í þessu sambandi vísað ítrekað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem rætt væri um eflingu Alþingis. Þótti þeim framganga stjórnarmeirihlutans ekki í samræmi við það markmið. Vinna í þingnefndum væri frosin fyrir tilstuðlan stjórnarmeirihlutans.

Stjórnarliðar töldu málið hins vegar storm í vatnsglasi. Þingið kæmi aftur saman að loknum sveitarstjórnarkosningum og rætt yrði um þau mál sem afgreidd yrðu. Ennfremur teldu sumir þingmenn að fara þyrfti betur yfir ýmis mál og kalla til fleiri gesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert