„Getur verið að barátta Flokks fólksins gegn mismunun, óréttlæti, fátækt og allt of lágum launum verkafólks sé ástæða þess að hann er útilokaður frá leiðtogaumræðum sem haldnar voru í Gamla bíói í morgun?“ spurði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins og gerði þar að umtalsefni sínu leiðtogaumræður sem fram fóru á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu um sambúð borgar og atvinnulífs.
„Flokkur fólksins var eini flokkurinn sem á fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem ekki var boðið. Það voru ekki mistök, nei, það var spurt hvort við hefðum gleymst. Nei, það var ekki pláss fyrir ykkur. Það voru of margir í pallinum,“ sagði Inga og bætti við:
„Eitt er víst, að Flokkur fólksins mun aldrei hvika frá þeirri hugsjón að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa. Flokkur fólksins styður komandi kjarabaráttu verkafólks af öllum mætti. Það eru þeir með lægstu launin sem bera þyngstu byrðarnar, það eru þeir sem alltaf borga óráðsíu, gjaldþrot, sukk og svínarí elítunnar og þeirra fáu sem eiga nánast allan þjóðarauðinn. Að þessi samtök skuli hunsa okkur svona gjörsamlega segir okkur aðeins eitt; þau vilja losna við Flokk fólksins. Við erum að gera rétt.“