Að mati bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar gefur framsetning Samtaka atvinnulífsins á rekstrarframmistöðu sveitarfélaga og hvernig þau standa innbyrðis út frá mismunandi rekstrarmælikvörðum ekki rétta mynd af rekstrarstöðu sveitarfélaganna í dag.
Þetta kemur fram í athugasemdum frá þeim Haraldi L. Haraldssyni bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar og Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sem sendar voru fjölmiðlum í dag.
Bæjarstjórarnir gera alvarlegar athugasemdir við nokkur atriði í samanburði SA. Þeir gagnrýna stigagjöfina í samanburðinum, en samanburður var gerður á alls níu mælikvörðum, þar sem það sveitarfélag sem kom best út fékk 12 stig og það sem kom verst úr fékk 1 stig.
„Ekki þarf að vera mikill munur á milli sveitarfélaga til þess að fá 12 og 1. Þannig að stigagjöfin getur skipt miklu máli þó munurinn á milli sveitarfélaga sé lítill í einstökum mælikvörðum,“ segja bæjarstjórarnir.
Þá segja þeir að skuldir sveitarfélaga fái of mikið vægi í samanburði SA en alls tengjast fjórir samanburðarþættir af níu skuldastöðu sveitarfélaganna með beinum hætti.
„Af eðlilegum ástæðum raðast þau sveitarfélög best í þeim samanburði sem skulda minnst og fá þar af leiðandi hæstu stigin. Eins og stigagjöfin er vegur það nokkuð þungt og því spurt hvort það sé rétt nálgun þegar er verið að skoða rekstrarframmistöðu í dag að skuldir fortíðar vegi svo þungt?“ spyrja bæjarstjórarnir, en þeirra sveitarfélög voru samanlagt í 10. og 12. sæti í greiningu Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur og Kjartan segja að ef litið væri framhjá skuldum sveitarfélaganna, sem séu hluti af uppsöfnuðum rekstrarvanda fortíðar, myndi Reykjanesbær koma best út úr heildarsamanburði 12 stærstu sveitarfélaganna.
„Sveitarfélög hafa almennt ekki verið að taka lán á undanförnum árum. Þau hafa verið að hagræða í rekstri og greiða niður skuldir. Því gefur það villandi mynd um stöðuna í dag að setja upp samanburð á þann veg sem Samtök atvinnulífsins gera,“ segja bæjarstjórarnir.
Þá segja þeir að athygli vekji að í samantekt SA séu að notast við meðaltal frá 2002 til 2018, þegar útgjöld á íbúa eru borin saman og reikna með því að þar sé verið að tala um meðaltal ársreikninga sveitarfélaganna 2002 til 2017 og fjárhagsáætlun 2018.
„Þarna er breyta sem byggir ekki á sama grunni og aðrar,“ segja bæjarstjórarnir og bæta því við að ljóst sé að útgjöld á íbúa í upphafi þessarar aldar segir lítið til um útgjöldin í dag.
„Ef það hefur verið ætlun Samtakanna að varpa ljósi á fjármálastjórn sveitarfélaganna að meðaltali frá árinu 2002 þá hefði verið rétt að láta það koma skýrt fram en ekki eins og hér hefur verið gert sem gefur fulla ástæðu til að ætla að framsetningin gefi ekki raunverulega mynd af rekstrarframmistöðu sveitarfélaganna í dag,“ segja bæjarstjórarnir.
Þeir setja einnig spurningamerki við það hvort staðhæfing SA um að „góður rekstur virðist skila sér heilt yfir í lægri skattheimtu á íbúa“ standist fullkomlega og gefi rétta mynd.
Þeir spyrja hvort ekki sé nauðsynlegt að fara dýpra í málið og horfa í skattstofn sveitarfélaganna, en Reykjanesbær er með minnstar tekjur á hvern íbúa og Hafnarfjarðarbær þær fjórðu minnstu.
„Í fyrsta lagi er sögð mikil fylgni við rekstrarsamanburðinn hér að framan, þar sem fjórir mælikvarðar af níu eru beintengdir skuldum, og því hversu hátt hlutfall af tekjum íbúa sveitarfélögin taka til sín með skattheimtu. Er ekki nauðsynlegt þegar svona staðhæfing er sett fram að fara dýpra í málið? Hér hlýtur skattstofninn að skipta miklu máli. Hann vegur nokkuð þungt þegar álagningahlutfall er skoðað,“ segja bæjarstjórarnir.
Þá segja bæjarstjórarnir einnig litið framhjá því hversu margir íbúar eru um hvert stöðugildi í sveitarfélögunum, en sá samanburður hefði verið þeirra sveitarfélögunum hagfelldur.
„Þegar fjöldi íbúa á hvert stöðugildi er skoðaður skipa Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær sér í annað og þriðja sæti með flesta íbúa á hvert stöðugildi. Hér hefðu þau sveitarfélög skorað hátt.“