Vél sem brýtur saman þvott, lítil sjávarfallsvirkjun, ný kæliaðferð á fiski fyrir þróunarlönd og hinir ýmsu róbotar voru meðal þeirra verkefna sem til sýnis voru á Tæknidegi Háskólans í Reykjavík í gær. Nýr kappakstursbíll var einnig afhjúpaður. Líkt og undanfarin ár var margt um að vera og mörg spennandi verkefni litu dagsins ljós. Gestum og gangandi gafst tækifæri til að kynna sér afrakstur þess öfluga starfs sem unnið er í tækni- og verkfræðideild HR.
Eitt verkefni hefur vakið sérstaka athygli innan háskólans samkvæmt Eiríki Sigurðssyni, forstöðumanni markaðs- og samskiptasviðs, og er það vél sem brýtur saman þvott. Jóhann Garðarsson, nemandi í hátækniverkfræði, átti hugmyndina að vélinni og smíðaði hana sjálfur.
Aðspurður segir Jóhann að hugmyndin hafi kviknað þegar hann velti því fyrir sér hvernig hægt væri að gera lífið örlítið þægilegra og auðveldara. Hann viðurkennir fúslega að það verkefni að brjóta saman þvott sé ekki í sérstöku uppáhaldi hjá honum.
Vélin virkar þannig að á henni er skynjari sem skynjar þegar flík er lögð á vélina. Hægt er að stilla hana þannig að hún sé sjálfvirk og byrji að brjóta saman um leið og flík hefur verið lögð á hana eða þannig að ýta þurfi á takka til að setja hana af stað. Eins og er þá er ferlið, þ.e. hvernig flíkur eru brotnar saman, eins fyrir allar flíkur. Jóhann stefnir þó á að þróa vélina áfram og breyta því.
Vélin er frumgerð og því nokkuð stór og þung. Jóhann sá þó strax við smíði vélarinnar leiðir til þess að gera hana minni og léttari. Það verður því nóg að gera hjá Jóhanni á næstunni, en hann útskrifast í júní og stefnir á framhaldsnám erlendis eftir sumarið.
Kappakstursbíllinn sem var sýndur í dag er sjá þriðji sem er smíðaður innan skólans. Nemendur smíða bílinn sjálfir frá grunni með það að markmiði að keppa á honum í Formula Student-keppninni sem haldin er árlega á hinni frægu Silverstone-kappakstursbraut á Englandi. Samkvæmt Eiríki er mikið afrek að komast inn í keppnina enda eru strangar kröfur gerðar, m.a. til öryggisbúnaðar bílanna. Á síðasta ári lenti Háskólinn í Reykjavík í 15. sæti af 90 keppendum frá 30 löndum.