Ofurlaun er tímaskekkja og ummæli eins og að greiða þurfi íslenskum forstjórum há laun vegna erlendrar samkeppni eiga ekki við, þetta eru goðsagnir, segir Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur. Hún var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun ásamt Styrmi Gunnarssyni, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og Svavars Gestsonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
Styrmir segist ekki skilja hvers vegna í ósköpunum Alþingi hafi ekki afnumið ákvörðun Kjararáðs varðandi laun æðstu stjórnenda ríkisins líkt og gert var í tvígang hér áður.
Græðgin er frumhvöt og sá sem græðir verður að græða meira segir Svavar og segir að ein helsta skýringin á þessum ofurlaunum sé að finna í markaðsþjóðfélaginu sem Ísland er.
Húsnæðismarkaðurinn var þeim ofarlega í huga í þættinum og segir Svavar að húsnæðisverð sé orðið allt of hátt.