Tæplega 5.000 manns hafa nú skráð nafn sitt á undirskriftalista sem stofnaður var eftir að Ísrael fór með sigur í Eurovision, en á síðunni er hvatt til þess að Ísland taki ekki þátt í keppninni það árið.
Á síðu undirskriftalistans, sem Árni St. Sigurðsson stofnaði, segir að „í ljósi mannréttindabrota Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni er ekki siðferðilega verjandi að taka þátt í glanskeppni eins og Eurovision í skugga þess ofbeldis sem Ísrael beitir nágranna sína. Ísraelsríki hefur á undanförnum mánuðum myrt tugi einstaklinga fyrir það eitt að mótmæla ástandinu.“
Félagið Ísland-Palestína hefur meðal annarra gagnrýnt Evrópu fyrir að hafa ekki staðið með mannréttindum þegar Ísrael stóð uppi sem sigurvegari keppninnar á laugardag. Þá hefur stjórnarmaður varastjórnar félagsins hvatt Íslendinga til að sniðganga keppnina.
„Við gerum fastlega ráð fyrir því að vera með að ári eins og við gerum alltaf,“ sagði Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, í samtali við mbl.is í gær.
„Við getum orðað það þannig á þessu stigi að það er allt tekið til skoðunar,“ segir Skarphéðinn. „Við eigum eftir að funda um þetta og meta stöðuna eins og við gerum alltaf. Það er ýmislegt sem spilar inn í, hvar keppnin er haldin og kostnaður við að taka þátt í keppninni og svoleiðis.“
4.989 manns höfðu skrifað nafn sitt á listann er fréttin var birt.