Íslensk ungmenni kepptu í Danmörku

Íslensku ungmennin voru í góðu skapi að lokum fjörðu keppni.
Íslensku ungmennin voru í góðu skapi að lokum fjörðu keppni. Ljósmynd/Aðsend

Sjö íslensk ungmenni á aldrinum 14 til 19 ára frá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur tóku þátt í Tour de Himmelfart í Odder á Jótlandi dagana 10. – 12. maí, en keppnin er meðal þeirra stærstu í Evrópu fyrir börn og unglinga. „Þau stóðu sig bara ferlega vel,“ segir Ármann Gylfason, þjálfari hópsins, í samtali við mbl.is.

„Þetta var fyrst og fremst mikil lífsreynsla fyrir hópinn, við vorum fyrst og fremst að reyna að auka reynslu þeirra,“ segir Ármann. Hann segir jafnframt að vel hafi verið staðið að keppninni og að þetta hafi verið mjög fagmannlegt. Þessir þættir ásamt fjölda keppenda hafi gert þetta mikið tækifæri fyrir íslensku ungmennin til þess að kynnast hvernig er að hjóla í stórum keppnum.

Aðstæður sem ekki eru á Íslandi

Þetta er mjög sterkt mót sem haldið var í Danmörku á dögunum, að sögn Ármanns. „Það eru þarna krakkar frá öllum Norðurlöndunum, Hollandi, Belgíu og Ítalíu. Þannig að þetta var mjög mikið á brattann að sækja, þarna voru krakkar með þeim bestu í sínum árgöngum. Þetta mót gefur okkar krökkum svona smá hugmynd um hvað þarf að gera og hversu góð þau þurfa að vera til þess að vera með á þessu alþjóðasviði,“ segir hann.

Ármann segist ánægður með viðmót og árangur hópsins. „Þau fóru bara brött í þetta og tóku þessu bara rosalega vel og lærðu alveg helling. Þetta er auðvitað eitthvað umhverfi sem íslenska keppni-senan býður ekkert uppá. Þarna eru kannski 100 keppendur í hverjum aldursflokki.“

Natalía, Inga Birna og Bergdís tóku þátt í keppnum U17
Natalía, Inga Birna og Bergdís tóku þátt í keppnum U17 Ljósmynd/Aðsend

Spurður um hvaða reynslu væri verið að sækja með því að fara erlendis segir þjálfarinn að verið sé „að hjóla mjög þétt og mikil keppni að reyna að vera fyrstur og mikill hraði inn í beygjurnar. Þau eru að læra hluti sem er ekki hægt að læra hérna heima, sérstaklega ekki þau. Það vantar svolítið keppnir fyrir þennan aldursflokk.“

Hann segir bæði takmarkaðan fjölda iðkenda og það að keppnir séu ekki sérstaklega hannaðar fyrir þennan aldursflokk valda því að erfitt er fyrir ungmenni að öðlast þessa keppnisreynslu hér á landi.

131 kílómeter

Þetta voru 5 keppnir teknar á þremur dögum, allar á götuhjólum en af mismunandi toga. Fyrstu tvo dagana voru tvær keppnir og síðasta daginn var ein löng keppni.

Samkvæmt Ármanni voru keppnirnar fyrstu tvo dagana styst um það bil 12 kílómetrar og þær lengstu upp í 80 kílómetra hjá elstu keppendum. Síðasta daginn fór elsti flokkurinn 131 kílómetra í mjög krefjandi braut. „Það var mjög mikið af brekkum, töluverður vindur og mikill hraði,“ að sögn Ármanns. Yngri flokkar fóru aðeins færri hringi en hver hringur var um 15 kílómetrar.

„Allar keppnirnar voru mjög erfiðar og þau koma vel þreytt úr þessari ferð, það er á hreinu,“ segir Ármann. Þrátt fyrir þreyti segir hann stemninguna hafa verið rosa góða innan hópsins og þau hafi farið í Tívolíið eftir mótið.

Íslensku keppendurnir

Lilja Eiríksdóttir (U15)
Inga Birna Benediktsdóttir (U17)
Eyþór Eiríksson (U19)
Bergdís Eva Sveinsdóttir (U17)
Matthías Schou Matthíasson (U16)
Natalía Erla Cassata (U17)
Agnar Örn Sigurðarson (U19)

Eyþór í tímatöku.
Eyþór í tímatöku. Ljósmynd/Aðsend
Matthías á fullri ferð.
Matthías á fullri ferð. Ljósmynd/Aðsend
Beðið á meðan dregið er um röð á ráslínu.
Beðið á meðan dregið er um röð á ráslínu. Ljósmynd/Aðsend
Hópurinn ásamt liðstjórunum Ármanni Gylfasyni og Antoni Erni Elvarssyni.
Hópurinn ásamt liðstjórunum Ármanni Gylfasyni og Antoni Erni Elvarssyni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert