Stjórn þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir atburðina í Palestínu á liðnum dögum og vikum, „þar sem ísraelskir hermenn hafa myrt fjölda mótmælenda með köldu blóði,“ að því er segir í fréttatilkynningu.
Grimmileg viðbrögð Ísraelsstjórnar við fyrirsjáanlegum mótmælum „vegna vanhugsaðrar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um að flytja sendiráð sitt til Jerúsalem eru ólíðandi, en íslensk stjórnvöld vöruðu einmitt við þeirri ákvörðun.“
Vinstri græn hafi alla tíð lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað sé friðsamlegra lausna í deilum fyrir botni Miðjarðarhafs. Raunverulegur friður komist aldrei á með vopnavaldi og kúgun og mikilvægt sé að standa vörð um alþjóðalög og brjóta ekki á mannréttindum íbúa svæðisins.
„Stjórn þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs minnir jafnframt á samþykkt Alþingis Íslendinga frá 2011 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.“