Flest framboð sem bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík hafa tekið undir yfirlýsingu sem Sabine Leskopf, sem skipar 6. sæti á lista Samfylkingarinnar, sendi til allra framboðanna um að hafna því að nota hatursorðræðu í kosningabaráttunni.
Framboðin eru Alþýðufylkingin, Framsóknarflokkurinn, Kvennaframboð, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð, en yfirlýsingin var send á framboðin í kjölfar frambjóðendafundar í ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðinn laugardag.
Yfirlýsingin er svohljóðandi: „Við fögnum fjölmenningarlegu samfélagi í Reykjavík og heitum því að nota hvorki hatursorðræðu í komandi kosningarbaráttu né að notfæra okkur fordóma gegn innflytjendum.“