Vesturverk sem áformar virkjun Hvalár í Árneshreppi á Ströndum er í meirihlutaeigu Íslendinga og eru lífeyrissjóðir þar stórir aðilar. Þetta segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks, í tilefni þeirra orða Sigurðar Gísla Pálmasonar að virkjanafyrirtæki í eigu erlendra auðmanna svífist einskis til að ná sínu fram.
„HS Orka er að tæplega helmingi í eigu íslenskra lífeyrissjóða. HS Orka á 70% í Vesturverki. Vegna eignarhluta lífeyrissjóðanna eiga flestallir Íslendingar sem nú eru starfandi á vinnumarkaði eða hafa nýlega verið það hagsmuna að gæta í verkefninu. Erlenda eignarhaldið er hjá fyrirtækinu Innergex sem er skráð á hlutabréfamarkaði í Kanada. Eignarhald þess er mjög dreift, meðal annars eiga lífeyrissjóðir hluti í því,“ segir Ásgeir.
Sigurður Gísli gagnrýndi í viðtali við Morgunblaðið í gær að fyrirtækið hefði boðið Árneshreppi ýmiss konar fyrirgreiðslu með því skilyrði að fallist yrði á virkjun, meðal annars verkefni sem kæmu framkvæmdinni ekkert við. Ásgeir segir að fyrirtækið fari í einu og öllu að leikreglum samfélagsins, afli leyfa, fari í gegnum kynningarferli með verkefni sín, alla leið og alls staðar.
Hann hafnar því að verið sé að bera fé á sveitarstjórnina. „Flest fyrirtæki og öll góð fyrirtæki taka þátt í samfélaginu þar sem þau starfa. Þau styrkja íþróttastarf, sérstaklega yngri kynslóðarinnar, menningarlíf, góðgerðarstarfsemi og umhverfismál. Þetta gera HS Orka og Vesturverk. Ekkert íþróttastarf yngri kynslóða er í Árneshreppi. Í samtölum sveitarstjórnar og Vesturverks var rætt um hvernig fyrirtækið gæti stutt samfélagið. Hugmyndir að öllum þeim verkefnum sem nefnd hafa verið hafa komið frá heimamönnum. Sum þeirra tengjast beint væntanlegum framkvæmdum, svo sem lagning þrífasa rafmagns og ljósleiðara og endurbætur á hafnarsvæði. Önnur má skilgreina sem samfélagsverkefni,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
Umræðan um Hvalárvirkjun gaus upp á ný þegar það spurðist út að hópur fólks hefði flutt lögheimili sitt í Árneshrepp í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga en ný hreppsnefnd getur haft áhrif á byggingu virkjunarinnar. Breytingar á skipulagi hafa verið afgreiddar frá hreppsnefnd en Skipulagsstofnun hefur ekki staðfest þær. Ásgeir segir að fyrirtækið blandi sér ekki í slík mál. „Ég og samstarfsfólk mitt þekkjum ekki til þeirra sem komið hefur fram að eigi hlut að máli, nema í mesta lagi einhver nöfn af afspurn í fjölmiðlum. Og við þekkjum heldur enga stuðningsmenn okkar verkefnis sem flutt hafa lögheimili í hreppinn,“ segir Ásgeir.