„Þú getur kannski svindlað þér í gegnum ákveðinn hluta en hvar endarðu í lokin? Þú endar í gjaldþroti og stórkostlegu tapi fyrir verksmiðjuna, tapi fyrir bærinn og sári fyrir íbúana.“
Þetta sagði Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, í Kastljósþætti kvöldsins þar sem rætt var um nýja stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar vegna starfsemi United Silicon.
Spurð hver eigi að tryggja að búnaður í verksmiðjum eins og United Silicon virki og mengi ekki, sagði hún það fyrst og fremst á ábyrgð þess sem rekur verksmiðjuna að hafa réttan búnað. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfið og greinir frá þeim ítarlegu kröfum sem þurfi að uppfylla. Þeir sem setji upp verksmiðjuna eigi að tryggja að búnaðurinn standist kröfurnar.
Kristín sagði Umhverfisstofnun ekki skoða búnað sem þennan og nefndi að enginn hafi þá skyldu hér á landi. Í útgáfu starfsleyfis United Silicon var farið fram á frekar upplýsingar og spurt hvernig verksmiðjan ætlaði að útfæra hlutina en búnaðurinn sem var keyptur var ekki skoðaður. Auk þess fór verksmiðjan í mat á umhverfisáhrifum.
Hún sagði eftirlit Umhverfisstofnunar með starfsemi United Silicon hafa verið fordæmalaust. „Við höfum aldrei staðið í öðru eins,“ sagði hún og benti á að stofnunin hafi sent verksmiðjunni 18 milljóna króna reikning vegna eftirlitsins. Alls bárust um 1.600 athugasemdir vegna verksmiðjunnar. „Við vorum vakandi og sofandi yfir þessu.“
Kristín bætti við að Umhverfisstofnun hafi ákveðið að efla greinargerðir sínar þannig að þær séu skiljanlegri fyrir almenning. Mikilvægt sé að allir séu vel upplýstir um starf þeirra.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sagði afar mikilvægt að úttekt eins og sú sem Ríkisendurskoðun gerði fari fram til að sjá hvað fór úrskeiðis í málinu.
Hún sagði stofnunina hafa bent á að rekstur verksmiðjunnar hafi hafist þrátt fyrir að hún hafi verið ófullbúin með ófullkomnum búnaði. Ekki hafi verið gengið út frá því við mat á umhverfisáhrifum. „Við teljum að, hvorki við né aðrir, höfum haft forsendur á sínum tíma til að sjá fyrir fráviki af því tagi sem reyndin varð.“
Ásdís sagði að fleira en eitt hafi farið öðruvísi í tengslum við verksmiðjuna en til stóð. „Það á ekki að vera þannig að byggingarleyfi séu veitt af sveitarfélagi sem eru ekki samræmi við það deiluskipulag sem hefur verið samþykkt. Það gerðist í þessu máli,“ sagði hún og nefndi einnig vandamálin með búnað verksmiðjunnar, sem sé óskylt mál.
Hún bætti við að gengið sé út frá ákveðnum forsendum við mat á umhverfisáhrifum. Eftir það þurfi að fullhanna verksmiðjuna og starfsleyfi sé veitt í framhaldinu.
Velta megi fyrir sér sem fyrir sér hvort gera þurfi sérstakar úttektir á búnaði verksmiðja þegar þær hafi verið reistar. Það sé ekki inni í regluverkinu í dag.