„Finnst þetta virka eins og hreppapólitík“

Gjaldtaka hófst að nýju á bílastæði við Hraunfossa í gær …
Gjaldtaka hófst að nýju á bílastæði við Hraunfossa í gær og var hún stöðvuð af lögreglu samdægurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var að senda Umhverfisstofnun andmæli,“ segir Eva B. Helgadóttir, lögmaður H-foss sem stendur að gjaldtöku við Hraunfossa. Greint var frá því í fréttum í gær að lögregla hefði stöðvað gjaldtöku félagsins á bílastæðinu við Hraunfoss. Hið sama var gert í októ­ber í fyrra, en félagið hóf gjald­töku að nýju í gær.

Eva segir H-foss ekki hafa hafið gjaldtöku á aftur í dag og að félagið vonist nú eftir niðurstöðu frá Umhverfisstofnun um það hvort að stofnunnin ætli að halda málinu til streitu og beita dagsektum, líkt og stofnunin boðaði í gær.

„Ég fékk 21 klukkutíma til að andmæla beitingu þvingunarúrræða og ég var að ýta á send,“ segir Eva og kveðst vona að Umhverfisstofnun bregðist hratt við á móti.

„Hér er ekki einu sinni lagaheimild“

„Stjórnarskráin og mannréttindasáttmálinn segja að bæði fólk og lögaðilar eigi að njóta eigna sinna í friði. Ef stjórnvald ætlar að skipta sér af, þá verður að fylgja ákveðnum reglum,“ segir hún. Lagaheimild verði að vera fyrir slíku, auk þess sem almannaþörf verið að liggja að baki kröfunni. „Hér er ekki einu sinni lagaheimild,“ bætir hún við.

„Þetta er mjög skrýtið allt og mér finnst þetta virka eins og hreppapólitík.“

Spurð hvort að lögregla hafi lagt hald á það fé sem safnaðist við gjaldtökuna í gær segir hún svo ekki vera. „Ég veit heldur ekki á hvaða grundvelli það hefði átt að vera.“ Ekki hafi heldur verið gerð krafa um að fénu væri fyrir komið í sjóði þar til niðurstaða liggi fyrir.

Líkt og áður kom fram þá hóf H-foss einnig gjaldtöku í október í fyrra sem einnig var stöðvuð. Félagið kærði þá ákvörðun til Umhverfisráðherra í febrúar - mars og segir Eva málið nú liggja þar. „Þannig að í rauninni var líka aðeins verið að ýta við því hvort það færi ekki eitthvað að gerast þar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert