Vilja þjóðarsátt um hækkun launa

Grunnskólakennarar vilja þjóðarsátt um hækkun launa.
Grunnskólakennarar vilja þjóðarsátt um hækkun launa. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sjöundi aðalfundur Félags grunnskólakennara skorar á alla sem láta sig skólastarf varða að mynda þjóðarsátt um hækkun launa og bætt starfskjör grunnskólakennara og skólastjórnenda.

Fram kemur í tilkynningu að einungis þannig verði skólarnir samkeppnishæfir um vinnuafl og aðsókn í kennaranám muni aukast.

Fundurinn skorar á ríki og sveitarfélög að gera laun grunnskólakennara samkeppnisfær við laun annarra sérfræðinga á opinberum og almennum markaði.

„Alvarlegur vandi blasir við grunnskólum landsins þar sem nýliðun grunnskólakennara er afar lítil og verði ekkert að gert mun vandinn aukast stórlega á næstu árum. Stórsókn í menntamálum eru orðin tóm nema laun grunnskólakennara verði gerð samkeppnishæf launum annarra sérfræðinga með sambærilega menntun,“ segir í áskoruninni.

„Aðalfundur Félags grunnskólakennara undirstrikar að átak verði gert í jöfnun launa á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar í samræmi við sameiginlega stefnu aðila um að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnisfær, sbr. 7. gr. um jöfnun launa í samkomulagi um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna dags. 19. september 2016.

Að lokum skorar fundurinn á Samband íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd þeirra að ganga frá kjarasamningum við Félag grunnskólakennara sem allra fyrst en félagið hefur verið með lausan kjarasamning frá 1. desember 2017. Þessi staða skapar óvissu meðal félagsmanna og er skaðlegt skólastarfi í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert