Tveir af sex prófessorum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands eru kaþólskrar trúar. Eitt af höfuðhlutverkum deildarinnar er að mennta presta og aðra starfsmenn hinnar lúthersku þjóðkirkju á Íslandi.
Það er gert samkvæmt sérstökum samstarfssamningi deildarinnar við embætti biskups. Prófessorar deildarinnar eiga sjálfkrafa rétt til setu á prestastefnu, einn úr þeirra hópi situr á kirkjuþingi og þeir taka þátt í biskupskjöri. Það hefur þó nokkur undanfarin ár verið skilyrði fyrir kosningarétti við biskupskjör að viðkomandi prófessor sé innan þjóðkirkjunnar.
„Ég lít á það sem persónulegt mál hvaða kirkjudeild hver og einn tilheyrir. Þetta eru ekki opinberar upplýsingar,“ sagði Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, í samtali við Morgunblaðið, þegar hún var spurð að því hvort það hefði einhver áhrif á samband deildarinnar við þjóðkirkjuna að hluti hinna föstu kennara væri kaþólskrar trúar. Hún sagði að í deildinni ríkti akademískt frelsi eins og í háskólanum öllum og ráðningar í kennaraembætti færu ekki eftir trúarskoðunum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.