Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og mbl.is, sagði í morgun að hann sæi mest eftir því að hafa ekki sótt fastar, þegar hann var forsætisráðherra, að tryggja dreift eignarhald bankana þegar þeir voru einkavæddir á sínum tíma.
Þetta kom fram í útvarpsþættinum Þingvellir, undir stjórn Páls Magnússonar, á K100 í morgun.
Davíð, sem er einnig fyrrverandi seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hluta Sjálfstæðisflokksins og alla aðra stjórnmálaflokka hafa talið að ekki væri raunhæft að fara fram á dreift eignarhald.
„Ég tel að þetta hafi sannast í áfallinu sem maður kennir við bankana að ógæfa þeirra varð þegar eignaraðilarnir sem voru svo stórir tóku að láta bankana snúast mest um sjálfan sig. Þá tel ég eftir á að hyggja að ég hefði átt að fylgja þessu enn fastar fram þó ég fyndi fyrir svona mikilli andstöðu,“ sagði hann.
Páll vísaði til samtals hans við Davíð í febrúar 2008 þar sem Davíð hafði sagt að það lægi fyrir að bankarnir myndu falla um haustið og spurði hvers vegna ekkert var gert á þeim tíma. Davíð sagðist hafa farið á fund ríkisstjórnarinnar og sagt frá stöðu mála á grundvelli þess sem erlendir seðlabankar væru að segja.
Hann telur að viðbrögð annarra aðila eins og Gordons Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og seðlabanka Bandaríkjanna hefði verið önnur þegar bankarnir féllu, ef vitað hefði verið að íslensk yfirvöld hefðu verið að vinna í málinu frá því í febrúar. Þó svo að Davíð telji sig ekki getað sannað það þá sagði hann ekki útilokað að hægt hefði verið að mæta hruninu með öðrum hætti.
Í þættinum spurði Páll um stöðu Sjálfstæðisflokksins. Því svaraði Davíð að flokkar sem hafa verið ráðandi í stjórnmálum um alla Evrópu, til að mynda flokkar sósíaldemókrata, hafa misst mikið fylgi. Þá sagði hann að honum þætti afstaða flokksins til Icesave hafi skaðað hann.
„Flokkurinn var nú reyndar að ná sér vel frá því þegar að hann óvænt kúventi og fór með ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms með Icesave-málinu. Á því hefur aldrei fengist fullnægjandi skýring af hverju það var gert. Þá höfðu verið gerðar kannanir, meðal annars leynikannanir sem flokkurinn hafði gert, sem sýndi flokkinn í góðri stöðu, vel yfir 40%. Þeir sem gerðu könnunina mátu það þannig að það væri mjög fátt sem gæti haggað því. Þetta mál fór illa með flokkinn,“ sagði Davíð.
Fram kom í máli Davíðs um stöðu mála í Reykjavík að minnihlutinn hafi ekki látið heyra í sér og það væri möguleg ástæða þess að hann njóti ekki meira fylgis.
„Þá fannst mér minnihlutinn í borginni samsama sér meirihlutanum í borginni sem gerði ekki neitt, með því að gera ekki neitt. Þetta held ég hafi verið mjög vont því þá voru skilaboð til kjósenda að þetta skipti engu máli.“