Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að miðað hafi verið við þróun launavísitölu þegar launin hans voru ákvörðuð. Sjálfur hafi hann ekki þegið hækkun kjararáðs á laununum.
Ármann hefur sætt gagnrýni síðustu daga vegna þess að laun hans hækkuðu um 32,7% á árunum 2016 til 2017.
Hann tók fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni að hann starfaði ekki sem bæjarstjóri vegna launanna og að hann hafi ekki átt þátt í launahækkuninni.
Spurður út í launahækkun upp á 600 þúsund krónur sagði Ármann að peningarnir væru miklir en að þetta hafi verið niðurstaða miðað við þróun launavísitölu.
Hann sagðist telja eðlilegt að sest yrði niður eftir komandi sveitarstjórnarkosningar og farið yfir þessi mál.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í gær að sér þættu laun Ármanns vera óhófleg og að ekki væri eðlilegt að bæjarstjóri Kópavogs hefði hærri laun en forsætisráðherra.
Ármann gagnrýndi í viðtalinu að forsætisráðherra hefði sjálf þegið sína launahækkun, samkvæmt ákvörðun kjararáðs, þrátt fyrir að hafa lofað breytingum og hún hafi sjálf talað fyrir sömu aðferð og var notuð við launahækkun hans.
„Hún tók þessi laun upp á 35 prósent og 45 prósent sem þingmaður. Allt hennar fólk tók þessi laun. Það var boðað að gera eitthvað, það var ekkert gert og ennþá er verið að boða að gera eitthvað.“
Ármann nefndi að til greina gæti komið að bæjarstjóri Kópavogs fengi í framtíðinni tiltekið hlutfall af launum forsætisráðherra eða þess ráðherra sem færi með sveitarstjórnarmál.
Ármann sagði tímasetningu fregnanna af launahækkun hans ekki vera tilviljun.
Hann sagði upplýsingarnar ekki hafa verið neitt leyndarmál. Þær hafi verið á dv.is í marga mánuði og að fréttatilkynning hafi verið send út vegna málsins á sínum tíma.