Þyrlan gat ekki sinnt útkallinu

Þyrla Landhelgisgæslunnar gat ekki sinnt útkalli vegna tveggja ferðamanna sem lentu í Þingvallavatni í gær vegna þess að vakthafandi þyrlusveit uppfyllti ekki kröfur um lágmarkshvíld og því ekki hægt að kalla þyrluna út. Þetta kemur fram í svari frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, við fyrirspurn frá mbl.is um málið. Þar segir að miklar annir hafi verið hjá þyrlusveitinni undanfarna daga.

„Þyrlusveitin var virkjuð að kvöldi fimmtudags þegar tveggja ferðamanna var leitað á Vatnajökli. Þyrlan fór ekki í loftið en áhöfn þyrlunnar var í viðbragðsstöðu. Að morgni föstudags var óskað eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna alvarlegs atviks þegar eldur kviknaði í báti úti fyrir Tálknafirði. Þyrlan var svo aftur kölluð út á laugardagskvöldi þegar bátur tveggja manna fór á hliðina í Skagafirði en var snúið við þegar ljóst var að mennirnir væru heilir á húfi. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan 22:10. Þá um nóttina var aftur óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna manns sem fallið hafði í Ölfusá og var TF-GNÁ mætt til leitar klukkan 4:25. Þyrlan kom aftur til Reykjavíkur tæpum tveimur tímum síðar en þá var þyrlusveitin á mörkum hámarks vakttíma og uppfyllti þar með ekki lengur kröfur um lágmarkshvíld samkvæmt reglugerðum og öryggiskröfum.“

Strax um morguninn hafi verið hafist handa við að útvega aðra þyrluvakt með því að kalla fólk úr fríi. Tekist hafi að fullmanna aðra vakt klukkan 16 síðdegis en útkallið vegna ferðamannanna sem lentu í Þingvallavatni hafi komið laust eftir hádegi. „Landhelgisgæslan hefur bent á að einungis séu tvær þyrluáhafnir til taks rúmlega helming ársins. Þá má lítið út af bregða. Rétt er þó að undirstrika að oftast tekst að manna tvær áhafnir þegar mikið liggur við með því að kalla áhafnir úr vaktafríum. Það er þó ekki sjálfgefið og í gær tókst það því miður ekki fyrr en síðla dags.“

Þá segir í lok svars Ásgeirs að Landhelgisgæslan bindi vonir við að fjármagn fáist á næsta ári svo hægt sé að fjölga um eina þyrluáhöfn. „Við það fækkar þeim tilfellum til muna þar sem einungis ein vakt er til taks.“

Vísir greindi fyrst frá málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert