Fimm voru fluttir á slysadeild eftir að húsbíll fauk út af þjóðveginum undir Hafnarfjalli á sjötta tímanum í dag.
Einn farþeginn festist undir bifreiðinni en vel gekk að losa hann og er hann ekki alvarlega slasaður. Aðrir voru með eymsli eða óslasaðir. Alls voru fimm manns í bílnum, 3 fullorðnir og 2 börn, og voru þau öll flutt á slysadeild til aðhlynningar.
Greint er frá slysinu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi. Þar kemur fram að bifreiðin var á suðurleið en var kyrrstæð eða á mjög lítilli ferð þegar hún fauk út af veginum.
Hvöss suðaustanátt hefur verið á Suður- og Vesturlandi í dag með talsverðri rigningu og snörpum vindstrengjum við fjöll. Veðurstofan hefur varað við því að ökumenn ökutækja sem taka á sig mikinn vind séu á ferðinni.