Mikill meirihluti íbúa Vestfjarða er hlynntur því að nýr vegur í Gufudalssveit verði lagður samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar, en hún gerir ráð fyrir að vegurinn liggi að hluta til um Teigsskóg í Þorskafirði. Leiðin hefur verið kölluð Þ-H leið.
Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup vann fyrir Guðmund Halldórsson, fyrrverandi skipstjóra á Bolungarvík.
Samkvæmt henni eru 88,3% hlynnt tillögu Vegagerðarinnar og þar af 60,8% að öllu leyti fylgjandi henni, 18,2% mjög fylgjandi og 9,3% frekar fylgjandi.
Hins vegar eru 6,4% andvíg því að vegurinn um Gufudalssveit liggi með áðurnefndum hætti og þar af 2,2% að öllu leyti andvíg.
Mestur stuðningur er á meðal þeirra sem eru 65 ára og eldri, þeirra sem búa á suðurhluta Vestfjarða og eru með framhaldsskólapróf.
Könnunin var gerð dagana 7. - 21. maí. Úrtakið var 1.106 manns, fjöldi svarenda var 550 og þátttökuhlutfall því 49,7%.