Ákærður fyrir hatursorðræðu

Sema Erla Sedar.
Sema Erla Sedar. mbl.is/Sigurjón Ragnar

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur ákært mann fyrir hatursorðræðu vegna ummæla sem birt voru í athugasemdakerfi DV í nafni eiginkonu hans. Aðalmeðferð fer fram í dag. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Ummælin voru rituð í júlí 2016 við frétt sem bar yfirskriftina „Sema Erla sökuð um herferð gegn Útvarpi Sögu: Birtir hatursfull skilaboð“ og undir fréttinni var skrifað: „Vona að Sema Erla Serðir farist í næstu hryðjuverkaárás skítmenna af hennar tagi (múslimaskítmenna).“ Í ákæru eru þessi orð talin fela í sér sér ógnun, háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna trúarbragða þeirra.

Ummælin birtust undir nafni og starfsheiti eiginkonu hins ákærða, en hún er leikskólakennari í Eyjum. Ummælin komu eiginkonunni sjálfri í opna skjöldu þegar hún varð þeirra vör, en skjáskot af þeim fóru eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og furðuðu sig margir á því að leikskólakennari gæti viðhaft svo hatursfull ummæli opinberlega. Í samtali við DV eftir að ummælin féllu sagðist hún enga hugmynd hafa um hver gæti hafa skrifað athugasemdina, sem var rituð í gegnum Facebook-aðgang konunnar í athugasemdakerfi miðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert