„Aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um vinnubrögð borgarstjóra og meirihluta borgarráðs Reykjavíkur um þá ákvörðun að neita að birta bókun hans í opinberri fundargerð. 

„Fjölmargar spurningar hafa vaknað vegna umræddra aðgerða Reykjavíkurborgar um að örva kosningaþátttöku, m.a. um vinnslu upplýsinga og sendinga óumbeðinna skilaboða til kjósenda. Eðli málsins samkvæmt er um viðkvæmt málefni að ræða og því mikilvægt að ekki vakni grunur um að tilgangurinn með slíkum aðgerðum sé að þjóna ákveðnum framboðum en sniðganga önnur.“

Þannig hefst bókun Kjartans sem var talin innihalda trúnaðargögn og fékk því ekki að birtast í opinni fundargerð en var í stað þess færð í trúnaðarbók af formanni borgarráðs og fulltrúum meirihlutans í Reykjavíkurborg.

Kjartan fékk í framhaldinu þær upplýsingar að bókanir hans yrðu ekki gerðar opinberar fyrr en eftir kosningar.

„Skylda að kjósa“

Ástæðan fyrir því að bókun hans var talin innihalda gögn sem ekki mátti birta opinberlega er, að sögn Kjartans, sú að í bókun hans gerir hann athugasemd við orðalag í bréfum, sem senda átti nýjum kjósendum Reykjavíkurborgar og vísar til orðalags í bréfunum.

Í bókuninni vísar Kjartan nánar til tekið til þeirrar fullyrðingar að það sé „skylda að kjósa“. Kjartan gerði athugasemdir við þetta orðalag í bréfum sem senda átti nýjum kjósendum, ungu fólki og innflytjendum og taldi það villandi.

Taldi efni bréfanna trúnaðarmál

Formaður borgarráðs og meirihluti þess taldi að efni bréfanna væri trúnaðarmál og þar sem Kjartan vísaði til efnis þeirra í bókun sinni var bókunin ekki birt opinberlega, þrátt fyrir að bréfin væru á leið í dreifingu.

„Ég hef aldrei orðið vitni að svona túlkun í stjórnsýslu nokkurn tímann,“ sagði Kjartan um rökstuðning meirihluta borgarráðs.

Formaður borgarráðs, S. Björn Blöndal, vildi lítið tjá sig um ákvörðunina um að birta bókanir Kjartans ekki opinberlega en tók þá fram að hún yrði færð í fundargerð næsta fundar borgarráðs, eftir kosningar.

mbl.is er með bókun Kjartans og birtir hana í heild sinni hér að neðan:

„Fjölmargar spurningar hafa vaknað vegna umræddra aðgerða Reykjavíkurborgar um að örva kosningaþátttöku, m.a. um vinnslu upplýsinga og sendinga óumbeðinna skilaboða til kjósenda. Eðli málsins samkvæmt er um viðkvæmt málefni að ræða og því mikilvægt að ekki vakni grunur um að tilgangurinn með slíkum aðgerðum sé að þjóna ákveðnum framboðum en sniðganga önnur. Umræddar aðgerðir felast m.a. í kynningarherferð í samstarfi við auglýsingastofu þar sem vísað er á ákveðna vefsíðu en á borgarstjórnarfundi 15. maí var á það bent að á umræddri síðu væri ekki að finna upplýsingar um öll framboð sem taka þátt í borgarstjórnarkosningum 26. maí nk. Í a.m.k. einu bréfi er t.d. beinlínis kveðið á um skyldu íbúa til að kjósa sem orkar tvímælis í ljósi þess að það er hluti af kosningaréttinum að nýta hann ekki og senda þannig ríkjandi valdhöfum skýr skilaboð.  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því í apríl sl. að óskað yrði eftir áliti Persónuverndar vegna umræddra aðgerða borgarinnar en borgarstjórnarmeirihlutinn hefur beitt ýmsum brögðum til að tefja málið. Ótrúlegt er að meirihlutinn hafi ekki viljað bera umræddar aðgerðir undir Persónuvernd áður en þær komust til framkvæmda.

Þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu í febrúar sl. að farið yrði í aðgerðir til að stuðla að aukinni kosningaþátttöku í komandi borgarstjórnarkosningum, var það að sjálfsögðu gert í trausti þess að ýtarleg kynning færi fram á umræddum aðgerðum með góðum fyrirvara í borgarráði og að gengið yrði úr skugga um það í tæka tíð að ávallt yrði tryggt að ýtrustu persónuverndarsjónarmið yrðu virt. Loks níu dögum fyrir kosningu, fær borgarráð kynningu á málinu í tímahraki eftir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum og árangurslaust lagt til að umræddar aðgerðir verði bornar undir Persónuvernd áður en þær koma til framkvæmda. Sumar þessara aðgerða eru nú þegar komnar til framkvæmda. Mikilvægt er að sem mest sátt náist um slíkar aðgerðir en með óvönduðum vinnubrögðum í málinu, töfum og leyndarhyggju hafa fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans komið í veg fyrir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert