„Þetta er að mínu mati alveg fjarstæðukennt,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands, við mbl.is inntur álits á rökstuðningi Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, verjanda Guðmundar Andra Ástráðssonar, fyrir því að vísa máli skjólstæðings síns til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meintra ágalla við skipun dómara til Landsréttar.
Jón Steinar segir að hans mat sé að aðeins einn þáttur í málinu sem snýr að skipun dómara í Landsrétt hafi verið óeðlilegur, það hafi verið að dómurum sem ekki fengu starf við dómstólinn hafi verið dæmdar miskabætur.
„Það er búið að skipa í þetta millidómsstig, eða þennan Landsrétt, 15 dómara sem allir eru hæfir og hafa verið skipaðir löglega,“ segir hann og bætir við að hann telji Hæstarétt hafa staðfest lögmæti skipunar dómara í Landsrétt með dómi sínum í gær.
Vilhjálmur sagði við mbl.is í gær, í kjölfar þess að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Landsréttar í máli Guðmundar Andra, að hann telji ástæðu til þess að vísa málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli þess að dómarar við Landsrétt hafi ekki verið skipaðir samkvæmt lögum.
„Ég tel að annmarkar á málsmeðferðinni, bæði hjá ráðherra, þinginu og forseta, hafi átt að leiða til þess að dómur Landsréttar yrði ómerktur og málinu yrði vísað aftur heim í hérað, það er að segja að þessir fjórir dómarar færu ekki með dómsvald,“ sagði Vilhjálmur.
Spurður um áform Vilhjálms að hefja mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu segir Jón Steinar: „Mín skoðun er sú að ef menn kæra mál til Mannréttindadómstóls Evrópu þá eru menn að bera það fyrir sig að íslenska ríkið, eða dómstólarnir, hafi brotið gegn mannréttindasáttmálanum. Kærur þangað verða að byggja á því að sáttmálinn hafi verið brotinn.“
Hann telur rökstuðning Vilhjálms um að skipun dómara í Landsrétt varði ákvæði 6. greinar mannréttindasáttmála Evrópu, sem snýr að réttlátri málsmeðferð, ekki sannfærandi. „Þetta er að mínu mati alveg fjarstæðukennt og myndi koma mjög á óvart ef Mannréttindadómstóllinn vísar ekki bara þessu máli frá ef það kemur til einhverrar skoðunar þar,“ segir Jón Steinar.