Umfang bótasvika er enn umtalsvert hér á landi. Þrátt fyrir tiltölulega lítið atvinnuleysi er enn töluvert um að einstaklingar fái atvinnuleysisbætur sem þeir hafa ekki rétt á.
Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar (VMST) hafði í nógu að snúast í fyrra við eftirlit með greiðslum og við að uppræta misnotkun á atvinnuleysisbótum. Í fyrra sendi eftirlitsdeildin út alls 2.804 bréf vegna mála þar sem grunur lék á að einstaklingar á bótum hefðu rangt við, eða vegna rangra skráninga. Var alls 511 málum lokið með viðurlagaákvörðun.
Fram kemur í nýrri ársskýrslu Vinnumálastofnunar að skuldamyndun vegna þessara mála, sem upprætt voru, nam tæplega 128,5 milljónum króna. Ekki er búið að taka ákvörðun í 147 málum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um bótasvik í Morgunblaðinu í dag.
Í fyrra voru í fyrsta sinn samkeyrðar upplýsingar við staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna einstaklinga sem höfðu skráðar á sig fjármagnstekjur, til að kanna hvort atvinnuleitendur væru með fjármagnstekjur sem þeir höfðu ekki tilkynnt til VMST.