Mesta úrkoman sem mælst hefur í dag og nótt var í Bláfjöllum, þar sem hún hefur mælst 83 mm það sem af er degi. Víða hefur úrkoma verið á bilinu 30-50 mm á Suður- og Vesturlandi.
„Það rigndi vel í nótt og heldur áfram að rigna á sunnanverðu landinu,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Á ýmsum stöðum á Suðurlandi, m.a. undir Mýrdals- og Eyjafjallajökli hefur úrkoman mælst á bilinu 50-60 mm.
„Það bætist svo kannski annað eins við fram á kvöldið í kvöld, en styttir þó væntanlega upp,“ segir hann. „Fyrst hérna á suðvesturhorninu, þannig að þá ætti mesta vatnsveðrið að vera búið þó að það rigni eitthvað áfram á morgun.“
Ár á Suðurlandi hafa margar hækkað um allt að 50 sm vegna rigningarinnar og segir Sigþrúður Ármannsdóttir náttúruvársérfræðingur m.a. hafa hækkað sem því nemur í Hólmsá við Gunnarshólma og Hólmsá við Hrífunes. Varað hafði verið við mögulegum vatnavöxtum vegna úrkomu á Suður- og Suðvesturlandi.
„Síðan er núna farið er að sjatna í sumum ánna á ný, t.d. í Krossá og Múlakvísl,“ segir Sigþrúður. Ekkert varð hins vegar af hækkun í Elliðaám líkt og varað hafði verið við. Ekki hafi heldur borist neinar fregnir af skemmdum eða öðru slíku af völdum vatnavaxta.