Bolað burt eftir kvartanir í kjölfar eineltis

Adolf Ingi Erlingsson.
Adolf Ingi Erlingsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Áfrýjandi hefur aldrei viljað upplýsa stefnda [Adolf Inga Erlingsson] um það hvers vegna honum var sagt upp, þrátt fyrir ítrekaðar skriflegar beiðnir þess efnis.“ Þetta var meðal þess sem kom fram í máli lögmanns Adolfs í Hæstarétti í morgun þegar áfrýjun RÚV í máli er varðar uppsögn og einelti gegn Adolf var tekið fyrir.

RÚV var í byrjun júlí í fyrra dæmt til að greiða Adolf Inga 2,2 milljónir króna í bætur vegna eineltis og uppsagnar en honum var sagt upp í nóvember 2013. Þar kom meðal annars fram að RÚV hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögninni og því sé hún ólögleg.

Lögmaður Adolfs rakti að þrengt hafi verið að honum eftir að Kristín Hálfdánardóttir tók við sem íþróttastjóri íþróttadeildar RÚV árið 2009. Adolf hafði starfað hjá RÚV frá árinu 1992 og verið vel liðinn meðal samstarfsmanna sinna.

Mæltist til þess að Adolf yrði sagt upp

„Það liggur fyrir að íþróttastjórinn mæltist til þess að Adolf yrði sagt upp. Hann hafði þá kvartað undir einelti hennar og kvartað vegna launamála. Hann telur að þetta séu raunverulegar ástæður þess að honum hafi verið sagt upp,“ sagði lögmaður Adolfs og bætti við að hann hefði aldrei fengið fullnægjandi skýringar á uppsögninni.

Lögmaður Adolfs sagði meðal annars að honum hefði markvisst verið bolað burt eftir að Kristín tók við, til að mynda haldið frá lýsingum kappleikja. Þessu mótmælti lögmaður RÚV og benti á að Adolf hefði meðal annars annast lýsingar á Evrópumótinu í handbolta 2010, EM í fótbolta 2012 og verið aðallýsandi RÚV á Ólympíuleikunum 2012.

Lögmaður Adolfs sagði að Kristín hefði kvartað yfir hverju smáatriði sem hann gerði, hellti sér yfir hann við hvert tækifæri og gerði lítið úr honum fyrir framan vinnufélaga hans. Samstarfsmenn hans á RÚV töluðu meðal annars um að það hefði litið út eins og „íþróttastjórinn hefði haft litla þolinmæði fyrir stefnda.“

Hann sagði þetta skólabókardæmi um einelti á vinnustað; ítrekuð gagnrýni, niðurlæging, skortur á upplýsingagjöf og verkefni óvænt tekin frá starfsmanni. „Uppsögn stefnda markaði upphaf endaloka eineltisins og því var ekki um málefnalega uppsögn að ræða,“ sagði lögmaðurinn.

Liður í hópuppsögn

Lögmaður RÚV hafði aðra sögu að segja en hann benti á að Adolf hefði verið sagt upp í hópuppsögn og tveimur öðrum af íþróttadeild hefði verið sagt upp á sama tíma.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að því að viðbrögð þáverandi mannauðsstjóra RÚV við eineltiskvörtun Adolfs hafi verið ófullnægjandi og talist sem einelti. „Það að bregðast ekki við einelti á einhvern tiltekinn hátt er því einelti samkvæmt héraðsdómi,“ sagði lögmaður RÚV.

Mannauðsstjórinn kallaði Adolf og Kristínu til sín í sitt hvoru lagi og komst að þeirri niðurstöðu að um samskiptavanda væri að ræða, ekki einelti.

Lögmaður Adolfs var ósáttur með hlut mannauðsstjórans og sagði að hún hefði ekki rannsakað málið. Hún hefði ekki rætt við samstarfsfólk Adolfs og í kjölfar fundar þeirra þriggja hafi Adolf verið gert að undirrita yfirlýsingu þess efnis að hann myndi bæta ráð sitt.

„Kannski var faglegt mat hennar ekki rétt, kannski átti hún að bregðast öðruvísi við,“ sagði lögmaður RÚV og bætti við að mannauðsstjórinn hafi unnið eftir góðri trú og gripið til aðgerða þegar Adolf kvartaði undan einelti.

Adolf hafði áður greint frá því að búið hafi verið að jaðarsetja hann í fyrirtækinu þegar farið var í niðurskurð og hann hafi ekki verið fremstur í röðinni þegar kom að uppsögnum vegna langs starfsaldurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert