Ofbeldismenn flytja lögheimili án afleiðinga

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Starfskonur Kvennaathvarfsins eru hugsi yfir aðgerðum Þjóðskrár vegna lögheimilisflutninga í Árneshrepp á Ströndum. Þjóðskrá hóf með hraði frumkvæðisrannsókn og fékk m.a. aðstoð lögreglu við að fá úr því skorið hvort að fólk sem flutti lögheimili sitt í hreppinn í lok apríl og byrjun maí byggi þar sannarlega.

Áhugi Kvennaathvarfsins á þessu máli kemur ekki til af góðu. Hingað til hefur Þjóðskrá nefnilega haldið því fram að hún geti ekkert aðhafst er ofbeldismenn hafa flutt lögheimili sitt á heimili kvenna í algjörri óþökk þeirra. Nokkur dæmi um þetta hafa komið upp síðustu ár.

Konurnar sem fyrir þessu hafa orðið hafa í einhverjum tilvikum hrakist með börn sín frá  heimilum sínum og í Kvennaathvarfið því lögreglan hefur þrátt fyrir góðan vilja ekki getað fjarlægt menn þaðan sem þeir eru skráðir með lögheimili. „Og Þjóðskrá segist ekkert geta gert því að viðkomandi karlmaður sé skráður til heimilis þar sem hann býr samt ekki,“ útskýrir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. „Okkur hefur verið talin trú um það að þarna ríki kerfislægur ómöguleiki; að það sé beinlínis ekki hægt að aðhafast í svona málum.“

Vita ekki af flutningnum

Sigþrúður þekkir dæmi um karlmenn sem hafi flutt lögheimili til barnsmæðra sinna eða fyrrverandi kærasta eða eiginkvenna. „Einnig eru dæmi um að karlmenn hafi flutt lögheimili á heimilisfang kvenna sem þeim finnst einfaldlega að ættu að vilja vera í sambúð með þeim jafnvel þrátt fyrir enga fortíð eða framtíðarvon um slíkt.“

Konurnar vita að sögn Sigþrúðar oft ekki af þessum lögheimilisflutningum fyrr en karlmennirnir komi í heimsókn eða með öðrum hætti inn á heimilið. Þá sé í óefni komið. „Þeir eru svo kannski ekki velkomnir en þegar konurnar kalla til lögreglu til að láta fjarlægja þá er það ekki hægt, einfaldlega af því að þeir eru þar skráðir með lögheimili.“

Og í þeim dæmum þar sem lögregla er ekki kölluð til heldur beint haft samband við Þjóðskrá til að fá lögheimilisskráningunni breytt „þá hafa konurnar fengið þau svör að það sé ekki hægt. Það sé erfitt og flókið ferli.“

Sigþrúður segir að Kvennaathvarfið hafi reynt að aðstoða konur í þessum málum og fengið þessi svör sömu svör. „Starfsmenn Þjóðskrár eru allir af vilja gerðir en segja að ekki sé hægt að afturkalla lögheimilisskráninguna.“

Íbúi fái tilkynningu um flutning

Nú stendur til að breyta lögum þannig að sá sem á fasteign fái tilkynningu er einhver skráir þar sitt lögheimili. Þetta er skref í rétta átt að mati Sigþrúðar, en hins vegar segir hún að ganga þyrfti lengra; ekki sé nóg að fá tilkynningu ef ekki sé hægt að mótmæla henni. Þannig þyrfti kerfið að vera með þeim hætti að íbúi eða eigandi fasteignar þurfi að samþykkja lögheimilisskráninguna. „En þá hefur verið bent á að það sé flókið í útfærslu og því myndi fylgja mikil skriffinnska enda eru lögheimilisflutningar í langflestum tilfellum með vilja allra viðkomandi,“ segir hún.

Sigþrúður segir að í ljósi þessa alls hafi verið sérstaklega merkilegt að fylgjast með störfum Þjóðskrár í lögheimilisflutningamálinu í Árneshreppi. Þar var brugðist skjótt við og Þjóðskrá hóf þegar í stað rannsókn og kallaði til lögreglu sér til aðstoðar. Niðurstaðan var svo sú að fimmtán af átján lögheimilisskráningum í hreppinn voru felldar, þ.e. fólkið þótti ekki hafa sýnt fram á að það hefði þar fasta búsetu í skilningi laga um lögheimili.

Forgangsröðun samfélagsins

Í Árneshreppi var málið tengt við fyrirhugaðar kosningar í sveitarfélagi. Sigþrúður bendir á að við slíkar aðstæður hafi verið hægt að ganga í málið með hraði og fella niður lögheimilisskráningar. „Þetta vekur upp spurningar um það verðmætamat og þá forgangsröðun sem er í samfélaginu. Þarna var allt í einu svo auðvelt að bregðast við, þegar upp kom grunur um að fólk flytti lögheimili sitt á röngum forsendum og í pólitískum tilgangi. Lögreglan mætti heim til fólks og tók skýrslur. En þegar lífi og heilsu kvenna og barna er ógnað er flókið, erfitt og jafnvel ómögulegt að bregðast við.“

Sigþrúður segir að nú hafi verið sannað, með afgerandi hætti, að víst sé hægt að bregðast við og rannsaka sannarlega búsetu fólks. Það sýni málið í Árneshreppi. „Ég veit ekki til þess, að minnsta kosti í málum þeirra kvenna sem verið hafa hjá okkur í Kvennaathvarfinu, að lögregla hafi verið send á staðinn til þess að rannsaka það hvort að maðurinn búi á heimilinu eða ekki. Við höfum alltaf fengið þau svör að það sé ekki hægt. En nú sjáum við að fordæmið er fyrir hendi. Það má gleðjast yfir því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert