Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að áður en ráðist er í breytingar á skattkerfinu sem boðaðar eru í fjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra verði að liggja fyrir nákvæmar greiningar á hvaða áhrif þær hafa á hag heimila og fyrirtækja og samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma.
Nefndarmeirihlutinn hefur skilað ítarlegri umsögn við áætlunina og sendir ýmsar ábendingar um breytingar til fjárlaganefndar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Meirihlutinn telur nauðsynlegt að huga að breytingum á persónuafslætti þannig að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem eru á lægstu laununum og fari lækkandi eftir því sem laun hækka og falli niður hjá þeim sem njóta hæstu launa. Breytingum af þessu tagi verður ekki hrundið í framkvæmd án víðtæks samráðs og stuðnings aðila vinnumarkaðarins,“ segir m.a. um endurskoðun skattkerfisins.