Þótt blikur séu á lofti er erfitt að meta hvort fækkun gistinótta er liður í skammtímasveiflu eða komin til að vera. Þetta segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.
Fram kom í frétt mbl.is í gær að herbergjanýting á hótelum á Íslandi hefði fallið til muna á milli ára. Í apríl í fyrra var nýtingin 66% en í sama mánuði í ár var hún 54,7%. Stafar það bæði af auknu framboði hótelherbergja og færri gistinóttum. Þess ber þó að geta að páskarnir í ár féllu á milli mars og apríl, en í fyrra voru þeir í apríl og kann það að spila inn í.
Aðspurður hvort búast megi við lækkun hótelverðs á komandi árum segist Skapti ekki geta fullyrt um það, en framboð og eftirspurn komi auðvitað til með að stjórna því.
Því hefur stundum verið fleygt fram að ferðaþjónustan á Íslandi glími við ímyndarvanda og fólk hafi þá mynd af ferðaþjónustunni að þar sé okur allsráðandi. Skapti segir ímynd og orðspor Íslands sem áfangastaðar þó vera gott. Þá tekur hann ekki undir að fyrirtæki í greininni stundi okurstarfsemi. Hátt gengi krónu og kostnaðarhækkanir undanfarið hafi reynst fyrirtækjum þungur baggi.
„Hins vegar greinum við merki þess að komið sé að samfélagslegum þolmörkum að einhverju leyti. Það skiptir sköpum að við vinnum að framgangi greinarinnar í fullri sátt við almenning í landinu því það eru þessi samfélagslegu þolmörk, þolmörk íbúanna, sem skipta okkur máli,“ segir Skapti að lokum.