Tveir prestar voru með hærri laun en Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, á síðasta ári, samkvæmt lista Frjálsrar verslunar yfir tekjur í prestastéttinni. Það voru þeir Bragi Skúlason, sjúkrahúsprestur á Landspítala, og Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur hjá Fríkirkjunni í Reykjavík.
Bragi var launahæsti prestur landsins með 1.491.000 kr. á mánuði í fyrra, en Hjörtur þénaði þrjú þúsund krónum minna í mánuði hverjum. Agnes biskup er svo í þriðja sæti listans, með 1.293.000 kr. á mánuði.
Í fjórða sæti listans yfir tekjuhæstu prestana er Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur á Norðfirði, sem var með tæpar 1,2 milljónir króna á mánuði. Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands, er svo í fimmta sæti listans, en hann var sömuleiðis með tæpar 1,2 milljónir á mánuði að meðaltali.
Alls voru nítján prestar með yfir milljón í mánaðarlaun að meðaltali, samkvæmt lista Frjálsrar verslunar.
Sá fyrirvari er á þessum tölum að tekjukönnun Frjálsrar verslunar byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám ríkisskattstjóra. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur eða þá að útsvarsskyldar tekjur einstaklinga endurspegli ekki föst laun viðkomandi.