Sýrlenskt góðgæti til styrktar Jemen

Boðið var upp á gómsæta rétti í Ráðhúsi Reykjavíkur í …
Boðið var upp á gómsæta rétti í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Arnþór

Þeir Talal Abo Khalil, ásamt Kinan Kadouni og fleiri vinum, buðu upp á sýrlenskt góðgæti í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag og tóku í staðinn á móti framlögum í neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn í Jemen.

Talal og Kinan þekkja vel lífið í skugga átaka því báðir þurftu þeir að flýja heimkynni sín í Sýrlandi.

mbl.is/Arnþór

Í krafti bræðralags með þeim sem minna mega sín ákváðu þeir að taka höndum saman til að bæta líf barna sem eiga um sárt að binda í Jemen.

Allur ágóði rennur til neyðarsöfnunar UNICEF fyrir börn í Jemen, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is/Arnþór

Viðburðurinn var hluti af söfnunarátakinu Má ég segja þér soldið? sem UNICEF á Íslandi stendur fyrir.

„Eftir margra ára átök ríkir gífurleg neyð í Jemen, einu fátækasta ríki heims, neyð sem hefur farið framhjá mörgum. Nú er svo komið að Jemen er einn versti staður í heimi til að vera barn og nánast hvert einasta barn í landinu þarfnast neyðaraðstoðar. Mörg þúsund börn hafa látið lífið eða verið limlest í borgarastríðinu og lífum og framtíð margfalt fleiri barna er ógnað. Innviðir landsins hafa verið eyðilagðir, aðgangur að hreinu vatni og næringu er takmarkaður, heilbrigðiskerfið er að hruni komið og fjöldi opinberra starfsmanna hefur ekki fengið greidd laun í rúmt ár. Í ofanálag braust út skæður kólerufaraldur í landinu á síðasta ári en fleiri en milljón tilfelli hafa verið greind,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is/Arnþór

„UNICEF er á vettvangi og verður það áfram. Við hlúum að börnum og fjölskyldum þeirra og veitum nauðsynlega neyðaraðstoð. Hægt er að styðja söfnunina með því að senda SMS-ið JEMEN í númerið 1900 eða leggja inn frjálst framlag hingað. Fyrir 1900 krónur er t.d hægt að veita barni rúmlega tveggja vikna meðferð við vannæringu.“

Söfnun UNICEF

mbl.is/Arnþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert