Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sér ekki að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi geti haldið áfram meirihlutasamstarfi með Theodóru Þorsteinsdóttur, oddvita BF-Viðreisnar, eftir ummæli hennar í Sprengisandi í morgun.
Þar sagðist Theodóra líta svo á að hún hafi fengið uppsagnarbréf frá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi og að líklegast færi flokkurinn í meirihlutasamstarf með Framsókn. Þá lýsti hún afstöðu Margrétar Friðriksdóttur, Karenar Halldórsdóttur og Guðmundar Gísla Geirdal sem rýtingi í bakið á bæjarstjóranum Ármanni Kr. Ólafssyni.
„Það er erfitt að sjá það [samstarf milli Sjálfstæðisflokks og Theodóru], mjög erfitt. Hún er eiginlega búin að gefa þetta frá sér eins og hún talaði. Við megum búast við því að það skjóti upp kollinum einhver önnur samsetning meirihluta í Kópavogi,“ segir Grétar um framhaldið.
Hann bætir við: „Mér fannst hún vera mjög afdráttarlaus með það að þetta væri eitthvað persónulegt sem sennilega væri bara ekkert hægt að laga […]. Mér sýnist bara stefna í eina átt, það verður eitthvað annað reynt. Hvort það verður Framsókn eða eitthvað annað.“
Varðandi stöðu Ármanns Kr. Ólafssonar sem oddvita flokksins og hvort honum sé stætt að halda þeirri stöðu telur Grétar ólíklegt að hann segi sig frá oddvitahlutverkinu.
„Svo framarlega sem hann nær einhverju samkomulagi, þó hann verði að bakka gagnvart sínum eigin bæjarstjórnarflokki að einhverju leyti, þá á honum alveg að geta verið stætt [að halda áfram sem oddviti og bæjarstjóri]," segir Grétar.
„En hann náttúrulega ræður þessu heldur ekki einn. Það eru tvær hliðar á þessu máli. Þó að hann hafi viljað þetta [samstarf við Theodóru og BF-Viðreisn] þá er greinilegt að það er ekki meirihluti í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem er á sama máli,“ tekur Grétar fram og bendir á að oddviti sé ekki einvaldur.
Grétar rifjar upp sögu samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi og segir töluvert langa hefð fyrir samstarfi flokkanna þar sem að „lítill Framsóknarflokkur og stór Sjálfstæðiflokkur“ myndi saman meirihluta í bæjarstjórn.