Stjórnin í varðstöðu um óbreytt ástand

Þorsteinn Víglundsson sagði ríkisstjórnina vera stjórn þriggja Framsóknarflokka.
Þorsteinn Víglundsson sagði ríkisstjórnina vera stjórn þriggja Framsóknarflokka. mbl.is/Eggert

„Þessi ríkisstjórn er mynduð um það sem sameinar flokkana þrjá. Andstöðuna við nauðsynlegar umbætur á íslensku samfélagi,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Hann sagði ríkisstjórnina í varðstöðu um óbreytt ástand og að flokkarnir hefðu engan áhuga á að skapa hér stöðugra gengisumhverfi eða tryggja fyrirtækjum og almenningi hærra vaxtastig, auk þess sem veiðigjaldafrumvarpið sýndi það að flokkarnir hefðu engan áhuga á að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið.

„Hér er á ferðinni ríkisstjórn sérhagsmuna, íhaldsstjórn, ríkisstjórn hinna þriggja framsóknarflokka,“ sagði Þorsteinn.

Óveðursský hrannast upp

Hann gerði stöðu efnahagslífsins að umtalsefni og sagði „kunnugleg óveðursský“ hrannast upp við sjóndeildarhringinn.

„Mikil styrking íslensku krónunnar samhliða miklum launahækkunum innanlands hafa dregið mjög úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Vaxandi ójafnvægi er nú í þjóðarbúskapnum og hagvöxtur ekki lengur knúinn áfram af útflutningsgreinum okkar heldur vaxandi einkaneyslu og útgjöldum hins opinbera,“ sagði Þorsteinn og bætti við að þetta væri kunnugleg sjón.

„Þegar raungengi íslensku krónunnar er jafnhátt og nú er, kennir sagan okkur að skuldadagar eru skammt undan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert