Teiknuð mynd af liðsmönnum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í líki vígbúinna víkinga hefur verið töluvert til umræðu á samfélagsmiðlum um og eftir helgina. Ekki eru allir sáttir við framsetninguna á landsliðinu á myndinni, sem Knattspyrnusamband Íslands lét teikna og hefur birt á samfélagsmiðlarásum sínum. Stór útgáfa myndarinnar er einnig fyrir ofan aðalinngang Laugardalsvallar.
„Mikið er þetta hallærislegt,“ skrifar Arnar Eggert Thoroddsen tónlistargagnrýnandi á Facebook-síðu sína í dag. Hann segir að íslenska liðið hafi fyrst og fremst notið vinsælda vegna drengskapar, gleði og heilnæms viðhorfs til íþróttarinnar.
„Hér eru þeir orðnir ómanneskjulegir, blóðþyrstir barbarar. Vígamenn og nokkurs konar arískur undirtónn í þessu,“ skrifar Arnar Eggert.
Í bakgrunni myndarinnar virðast eldar loga í Kreml í Moskvu og það segir fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson að sé vandræðalegt.
„Ísland kemur á HM sem sá allra, allra minnsti bróðir sem þar hefur komist í dyrastafinn og svona „víkingagorgeir“ og svona ofbeldisfantasíur eru alveg langt fyrir neðan allar hellur,“ skrifar Illugi á Facebook-síðu sinni og margir lýsa sig sammála honum.
Guðmundur Andri Thorssonn þingmaður Samfylkingarn virðist óhress við þessa framsetningu Knattspyrnusambandsins og segir að Íslendingar hafi verið pappírsvíkingar sem unnu sín afrek á pappír, skáld og sveitafólk með annan fótinn í veröld sagna og ljósa.
„Umfram allt: herlaus þjóð, alltaf. Friðsöm en dálítið þrasgjörn. Við eigum ekki að líkja okkur við svona innrásarlýð sem fór með gripdeildum, morðum og nauðgunum um sveitir,“ skrifar þingmaðurinn og bætir við að hann telji taka þurfi upp skyldulestur á Gerplu í öllum skólum landsins.
Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, segir í samtali við KSÍ að viðbrögðin sem sambandið hafi fengið vegna myndarinnar hafi verið jákvæð, en þúsundir stuðningsmanna landsliðsins hvaðanæva úr heiminum hafa látið sér líka við hana á samskiptarásum sambandsins.
„Fólki finnst þetta bara flott. Við höfum ekki gert neitt svona áður,“ segir Ómar, en myndin er teiknuð í anda teiknimyndasagna Marvel og DC Comics.