Inga Sæland formaður Flokks fólksins talaði blaðlaust í ræðustól Alþingis í eldhúsdagsumræðum í kvöld og sagði ríkisstjórnina hafa svikið þjóðina á fyrstu sex mánuðum sínum í starfi. Hún sagðist hafa verið bjartsýn er hún sá stjórnarsáttmálann, en svo væri ekki lengur.
„Mér var kennt það að loforð tæki gildi þegar það kæmi til vitundar loforðsmóttakandans. Öll þjóðin hefur fengið þessi loforð, þessi sviknu loforð sem hafa í nánast öllum tilvikum verið innantómt blaður, algjört hjóm, nema hvað lítur að græðgisvæðingu og auðsöfnun,“ sagði Inga Sæland.
Hún gerði fátækt á Íslandi að umtalsefni sínu og sagði m.a. fjölda barna í fátækt hérlendis fara vaxandi.
„Það er verið að tala um sumarfrí og það er verið að tala um gleðilegt sumar. Við sem hér erum inni getum örugglega talað um gleðilegt sumar. Við verðum ekki í neinum vandræðum að fljúga út um allan heim, hvort sem það er Ástralía eða Kúba eða hvert sem er. Við höfum efni á því. En það er ekki það sama og við getum sagt um tugi þúsunda samlanda okkar, þegar við stöndum hér og segjum: „Góðir Íslendingar.““‘
Inga gagnrýndi einnig ekki væri búið að taka baráttumál hennar um að afnema tekjutengingu lífreyrisgreiðslna til umræðu í sölum Alþingis.
Hún sagði að það væri „rammlega“ búið að negla eldri borgara í fátæktargildru með því að skerða lífeyri þeirra á móti tekjum.