Miðflokkurinn ekki bóla

Gunnar Bragi Sveinsson sagði ástandið á Alþingi sjaldan hafa verið …
Gunnar Bragi Sveinsson sagði ástandið á Alþingi sjaldan hafa verið verra. mbl.is/Eggert

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins fjallaði um innkomu flokksins á svið íslenskra stjórnmála í upphafi ræðu sinnar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann sagði flokkinn hafa sýnt með árangri sínum í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum að hann væri engin bóla, eins og einhverjir hefðu áður talið.

„Það að Miðflokkurinn sé búinn að ná fótfestu í íslenskum stjórnmálum mun breyta íslenskri stjórnmálasögu á næstu árum og áratugum,“ sagði Gunnar Bragi.

Hann sagði eldri stjórnmálaflokka hafa fjarlægst grunngildi sín og legðu meira upp úr því að tryggja sér stöður og stóla. Þannig flokkur ætlar Miðflokkurinn aldrei að verða, að sögn Gunnars Braga.

„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var ekki mynduð um stefnu eða lausnir, heldur völd, stöður og stóla, eins og kjósendur hafa áttað sig á,“ sagði þingmaðurinn og vísaði til kosningaúrslitanna í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.

Ástandið á Alþingi sjaldan verra

Hann sagði að fögur fyrirheit hefði verið að finna í stjórnarsáttmálanum um eflingu Alþingis, en það væru öfugmæli.

„Því miður hefur ástandið hér sjaldan verið verra og traustið lítið,“ sagði Gunnar Bragi, sem nefndi að svo virtist sem málefnafátækt hrjáði ríkisstjórnarflokkana og að nefndir væru verklausar, ef ekki væri fyrir þau mál sem kæmu frá stjórnarandstöðuflokkunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert