Oddvitar Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar vildu ýmist ekki útiloka eða ekki tjá sig um þann möguleika að ráðinn yrði faglegur borgarstjóri í Reykjavík, sem kæmi þá ekki úr röðum kjörinna borgarfulltrúa, eftir að borgarstjórnarviðræðum lauk í dag.
„Ég ætla bara ekkert að tjá mig um þetta,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingar, um hvort hann gæti útilokað að ráðinn yrði faglegur borgarstjóri í stað hans.
Komið hefur fram í fjölmiðlum að oddvitar þeirra flokka sem eiga í viðræðunum ætli sér að klára umræðu um málefnin áður en ákveðið verði hver muni hreppa embætti borgarstjóra.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sagði það ekki stefnu flokksins að ráða eigi faglegan borgarstjóra þó að skiptar skoðanir væru um það meðal flokksmanna. „Ég útiloka ekki neitt,“ sagði hún þó.
Oddviti Viðreisnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sagði fjölmiðlaumfjöllun, um kröfu innan flokksins að ráðinn yrði faglegur borgarstjóri, vera slúður.
„Viðreisn á mörgum stöðum í landinu fór af stað í kosningabaráttu með það opinbert að þau vildu í nokkrum sveitarfélögum ráða faglegan sveitarstjóra þannig ég skil vel að fólk haldi að það eigi við í Reykjavík líka en við höfum aldrei sett það upp á borðið. Það hefur aldrei verið rætt,“ tók Þórdís Lóa fram.
„En við útilokum ekki neitt,“ bætti hún við.