Meirihluti velferðarnefndar Alþingis vill að kannað verði hvort unnt sé að svipta líkamsræktarstöðvar starfsleyfi komi í ljós að sala frammistöðubætandi efna og lyfja hafi farið fram innan veggja þeirra.
Þetta kemur fram í áliti meirihlutans vegna frumvarps Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Þar segir að fulltrúar íþróttahreyfingarinnar hafi bent á að þeir teldu stærsta vandann ekki vera innan skipulagðrar íþróttastarfsemi enda væri eftirlitið þar öflugt. Hins vegar væri ekkert slíkt eftirlit innan veggja líkamsræktarstöðva og vandinn því meiri þar.
„Meirihlutinn tekur undir þessar áhyggjur og beinir því til ráðuneytisins að skoða mál er viðkoma líkamsræktarstöðvum sérstaklega, þ.m.t. leyfisveitingar stöðva og hvort unnt sé að svipta þær leyfi komist upp um sölu frammistöðubætandi efna og lyfja innan veggja þeirra,“ segir í áliti meirihlutans.