Vill setja strætó í sparifötin á ný

Kjartan Magnússon sat í dag sinn síðasta borgarstjórnarfund, alla vega …
Kjartan Magnússon sat í dag sinn síðasta borgarstjórnarfund, alla vega í bili, eftir óslitna setu frá árinu 1999. mbl.is/Eggert

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat í dag sinn síðasta fund í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili, en hann hefur setið í borgarstjórn óslitið frá árinu 1999 og sem varaborgarfulltrúi frá árinu 1994.

Hann segir í samtali við mbl.is að það sé sérstök tilfinning að yfirgefa borgarmálin, en hann var ekki á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar undir lok síðasta mánaðar.

Kjartan flutti þrjár tillögur á síðasta fundi fráfarandi borgarstjórnar í dag og ein þeirra laut að því að strætisvagnar muni aftur verða skreyttir fánum á hátíðardögum.

„Það var ekkert sérstaklega vel tekið í tillöguna af hálfu meirihlutans en henni var vísað áfram til stjórnar Strætó,“ segir Kjartan, en hann lagði þessa tillögu einnig fram í upphafi kjörtímabilsins.

„Þá var henni vísað frá vegna kostnaðar, það var sagt að þetta myndi kosta margar milljónir en ég held að það hafi nú verið svolítið ýkt. Ég aflaði upplýsinga í millitíðinni um að þetta ætti ekki að vera svona dýrt, þetta á bara að vera tiltölulega ódýrt og einfalt,“ segir Kjartan, sem segist hafa heyrt það frá mörgum þeir sakni þess að hafa fána á strætisvögnunum á tyllidögum.

Strætisvagnar voru eitt sinn skreyttir fána á tyllidögum og þannig …
Strætisvagnar voru eitt sinn skreyttir fána á tyllidögum og þannig vill Kjartan Magnússon sjá það aftur.

„Þetta var mjög hátíðlegt og starfsmenn Strætó voru mjög hrifnir af þessu, en í tíð R-listans sáluga þá lagðist þetta af. Þá gengu gömlu fánarnir sér til húðar og þeir voru ekki endurnýjaðir,“ segir Kjartan, sem vill sjá strætisvagnana í sparifötum á ný.

Segir borginni hafa verið illa stjórnað

Hann segir annars þróunina í borginni á afstöðnu kjörtímabili ekki hafa verið heillavænlega.

„Eins og menn hafa fylgst með þá höfum við borgarfulltrúarnir í Sjálfstæðisflokknum verið í stjórnarandstöðu og ég held að hún hafi verið nokkuð hörð hjá okkur, enda nóg til að benda á sem betur hefði mátt fara,“ segir Kjartan, sem telur borginni að mörgu leyti illa stjórnað.

„Fjármál borgarinnar eru ekki í góðu horfi og húsnæðismálin í mjög slæmu horfi og í menntamálum þarf að taka til hendi. Það er unnið af metnaði hjá borginni á ýmsum sviðum en maður sér að því miður hefur stjórn helstu málaflokka verið slæm,“ segir Kjartan, sem segir fjárhagsstöðu borgarinnar miklu verri nú en þegar hann tók fyrst sæti sem borgarfulltrúi.

Mörg framfaramál hafa þó að mati Kjartans áunnist í borginni á þessum hartnær tveimur áratugum sem hann sat sem borgarfulltrúi. Sennilega of mörg til að telja þau upp.

Ungt fólk eyði of miklu í steinsteypu

Kjartan segir þó stöðuna í húsnæðismálum í Reykjavík nú til dags ekki góða og að það þyki honum miður.

„Fyrir 20 árum var það tiltölulega lítið mál fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Það gátu flestir sem voru með vinnu á annað borð keypt sér íbúð, litla íbúð, án þess að það reyndi mjög mikið á það. En núna er þetta orðið miklu erfiðara og það er leiðinlegt að sjá það,“ segir Kjartan.

„Ungt fólk sem vill flytjast að heiman frá foreldrum sínum, neyðist til að fara á leigumarkað sem er erfiður og ungt fólk ætti að vera að gera eitthvað annað við peningana sína en að setja þá alla í steinsteypu, það er tilneytt til þess að setja allt of stóran hluta sinna ráðstöfunartekna í húsnæðiskaup eða leigu,“ segir Kjartan, sem í dag talaði einnig fyrir því á fundi borgarstjórnar að borgin lækkaði álagningarprósentu fasteignagjalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert