Veit greinilega ekkert um málið

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég ætla að hvetja þingmanninn til að halda áfram að spyrja og halda áfram að lesa vegna þess að hann veit greinilega bara ekki nokkurn skapaðan hlut um þessi mál,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann brást við óundirbúinni fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins, um tekjur ríkisins af sölu Arion banka.

Birgir kvartaði yfir því að eftirlitshlutverk Alþingis hefði verið hunsað þegar kæmi að málinu og að auðveldara væri fyrir blaðamenn að fá upplýsingar um það en þingmenn. „Það var einmitt í blöðunum sem við fengum fréttir af því að ríkissjóður hafi ákveðið að falla frá forkaupsrétti tímabundið á bréfum Kaupþings við skráningu bankans á markað. Ég spurði margsinnis um það á vettvangi þingsins en fékk engin svör.“

Bjarni sagði ekki við ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra að sakast ef eftirlitshlutverki Alþingi hefði ekki verið sinnt. Þinginu hefði verið veittar allar upplýsingar um málið. Það væri ennfremur rangt að fallið hefði verið frá forkaupsréttinum. Hann væri enn fyrir hendi. 

Ríkisstjórnin ekki að gefa neitt eftir

„Það var gert ráð fyrir því í upphafi samningsins að ef til þess kæmi að menn ætluðu að leita markaðsverðs fyrir hlutabréf í Arion þá ætti að aðlaga þennan rétt að þeirri stöðu. Það hefur verið gert eftir ferli sem er algerlega gagnsætt og sjálfsagt að ræða og hefur reyndar verið kynnt hér í þinginu,“ sagði ráðherrann. Sagði hann ennfremur að ekki væri verið að gefa neitt eftir í þessum efnum. Eina sem sæti eftir væri fullyrðing Miðflokksins um að það væru góð viðskipti að ríkið eignaðist enn einn bankann.

„Háttvirtur þingmaður situr hérna núna, algerlega berskjaldaður, eftir að hafa flutt hér langar ræður um að 0,8 sé allt of lágt verð. En nú þegar bankinn er kynntur á tveimur mörkuðum kemur í ljós að væntanlega er það lægra verð sem segir okkur m.a. að þegar ríkið seldi hluti sína fyrr á þessu ári voru það góð viðskipti fyrir ríkið, alveg þveröfugt við málflutning Miðflokksins,“ sagði Bjarni ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert