Ekkert lið eins og Ísland

Íslenska landsliðið fagnar sæti sínu á HM síðasta haust.
Íslenska landsliðið fagnar sæti sínu á HM síðasta haust. mbl.is/Golli

„Vonir heillar þjóðar sem er brjáluð í fótbolta verða bráðum í höndum Hannesar Þórs Halldórssonar. En á þessum kuldalega morgni seint í maí notar markvörður Íslands ekki þessa kröftugu hendur til að stöðva skot frá Lionel Messi heldur til að pikka varlega í öxlina á leikskólakrakka í Reykjavík. Hann spyr drenginn, sem er í íslenskri landsliðstreyju og með fánalitinn málaðan á báðar kinnar sínar, hvort hann geti fært sig aðeins til hægri.“

Svona hefst umfjöllun bandaríska tímaritsins Time um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sem er á leiðinni á HM í Rússlandi.

Þar er sagt frá því er Hannes tók að sér að leikstýra auglýsingu fyrir Coca Cola vegna HM þar sem leikskólakrakkar spreyta sig á víkingaklappinu.

Blaðamaður greinir frá því að Hannes hafi starfað sem leikstjóri í fullu starfi þangað til hann fór í atvinnumennsku fyrir um fjórum árum.

„Þótt einhverjir leikmenn í 32-liða lokakeppni HM sinni hugsanlega aukastörfum þá er ekkert lið í fremstu röð í líkingu við þetta. Þjálfari Íslands starfar einnig sem tannlæknir. Einn af varnarmönnunum [Birkir Már Sævarsson leikmaður Vals] vinnur við að ferðast með salt á milli staða. Viðurnefni liðsins er Strákarnir okkar. Í svona litlu landi þá eiga allir hlut að máli,“ skrifar hann. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Hari

Lítil þjóð í alþjóðavæddum heimi

Blaðamaður ræðir við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og spyr hann út í velgengni liðsins.

„Það verður að fara varlega í að ákvarða um gæði heillar þjóðar eftir góðu gengi á íþróttasviðinu,“ sagði forsetinn.

„Að því sögðu, þegar um litla þjóð er að ræða eins og Ísland í alþjóðavæddum heimi, er mikilvægt að sýna sjálfum okkur og öllum heiminum að við getum komið á óvart og gert hluti sem fólk býst ekki við af okkur.“

Yngri flokka starf í Breiðabliki, knattspyrnuhallir, góð menntun þjálfara og Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, koma einnig við sögu í umfjöllun blaðamanns sem leitar skýringa á velgengni íslenska landsliðsins.

Blaðamaður nefnir að hæglega væri hægt væri að búa til kvikmynd um árangur Íslands og að heimatökin séu hæg því leikstjórinn sé þegar fyrir hendi, eða Hannes.

„Við erum ekki með neinar stórar stjörnur. Við erum að spila vegna ástar okkar á fótbolta og ástar okkar á landinu. Maður finnur ánægjuna sem við færum stuðningsmönnum okkar. Það er eitthvað hreint og tært við það. Þetta er fótbolti eins og hann gerist hvað fallegastur,“ segir Hannes. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert