Sú staða sem er komin upp, það er að nýir læknar komast ekki að á rammasamning hjá SÍ vegna ákvörðunar ráðherra, brýtur í bága við lög að mati Steingríms Ara Arason, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.
Þetta er meðal þess sem fram kom í samtali hans við Björt Ólafsdóttir í þjóðmálaþættinum Þingvellir á K100 í morgun. Steingrímur hefur gagnrýnir harðlega að þurfa að synja sérfræðilæknum um aðild að rammasamningi vegna fjárskorts. „Það á ekki að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna út frá veitendum heldur út frá notendunum, hinum sjúkratryggðu, og gera allt sem hægt er til að standa vörð um þeirra réttindi,“ sagði Steingrímur.
Rammasamningur nýrra lækna við SÍ hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir að greint var frá því að Anna Björnsdóttir sérfræðilæknir hefur lagt fram stjórnsýslukæru í ljósi þess að hún fær ekki aðild að samningnum. Anna er sérhæfð í Parkinsons-sjúkdómnum og starfar á Duke-háskólasjúkrahúsinu í Norður-Karólínu. Í bréfi landlæknis til bandarískra heilbrigðisyfirvalda sagði að mikil þörf væri á læknum hér á landi með þessa sérfræðimenntun og lagði Anna inn umsókn að rammasamningum til að opna stofu hér á landi. Umsókn hennar var hafnað í ljósi þess að heilbrigðisráðherra hafði ákveðið að fleiri læknar fengju ekki aðild að samningnum.
Takmörkunin sem um ræðir hófst í lok ársins 2015 vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu á fjárlagaliðum Sjúkratrygginga Íslands. Stofnunin óskaði eftir endurskoðun ákvörðunarinnar, en ráðuneytið staðfesti hana.
„Við fáum þau fyrirmæli að þetta stopp skuli halda áfram alveg óháð mati á þörf fyrir læknana inn á samninginn. Þá er það niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að það sé í algjörri andstöðu við samninginn og þau réttindi sem búið var að ákveða að fólk á að njóta,“ sagði Steingrímur í samtali við Björt í morgun.
Steingrímur segir að fyrirmæli ráðherra standist ekki samninginn. „Það eru ekki komin fram nein rök sem réttlæta það að hann hafi verið settur til hliðar með þessum hætti og þar með réttindi hinna sjúkratryggðu. Og það er það alvarlega í þessu. Ef að þetta hefði verið samningur um húsaleigu þá hefði engum dottið í hug að setja samninginn til hliðar, en af því að þetta er þjónustusamningur þá virðist það vera í lagi.“
Hér má sjá og hlusta á viðtalið í heild sinni: