Nafnlausar herferðir ekki ólöglegar

Ekki liggur fyrir hverjir stóðu á bak við nafnlausar auglýsingaherferðir …
Ekki liggur fyrir hverjir stóðu á bak við nafnlausar auglýsingaherferðir fyrir alþingiskosningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert liggur fyrir um það hvaða hulduaðilar stóðu á bak við nafnlausar auglýsingaherferðir sem voru áberandi á samfélagsmiðlum fyrir alþingiskosningar árin 2016 og 2017 og beindust að ákveðnum stjórnmálaflokkum.

Það liggur því ekki fyrir hvort stjórnmálasamtök sem lúta að eftirliti Ríkisendurskoðunar hafi staðið á bak við umræddar herferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks framlags bæri að geta í reikningum stjórnmálasamtakanna eða einstakra frambjóðenda.

þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningunum til Alþingis árin 2016 og 2017. Skýrslan var unnin að beiðni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, og fleiri þingmanna.

Þær síður sem voru mest áberandi voru Kosningar 2016 og Kosningar 2017 sem beindu spjótum sínum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna og Kosningavaktin sem rak áróður gegn flokkum á hægri vængnum. Síðurnar voru allar vistaðar á samfélagsmiðlinum Facebook.

Endurskoða lög um fjármál og upplýsingaskyldu

Í skýrslunni segir að ekkert bendi til þess að umræddar herferðir hafi verið ólöglegar miðað við núgildandi lög og því sé vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast nánar fyrir um hverjir stóðu á bak við þær. Þær rannsóknarheimildir sem helst kæmu til greina væru í höndum lögreglu en þá yrði að vera uppi grunur eða kæra um refsivert brot.

Í febrúar síðastliðnum skipaði forsætisráðherra nefnd um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka og um upplýsingaskyldu þeirra. Í nefndinni sitja fulltrúar allra stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi auk fulltrúa forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Auk almennrar endurskoðunar laganna er nefndinni falið að skoða leiðir til að takast á við nafnlausan kosningaáróður og auglýsingar og yfirfara athugasemdir ÖSE vegna alþingiskosninganna 2017, meðal annars um kosningabaráttu þriðja aðila og nauðsyn þess að setja um þær reglur. Niðurstöðu nefndarinnar er að vænta næsta haust.

Grípa þarf til aðgerða

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að grípa þurfi til aðgerða til að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif á kosningar þar sem stjórnmálasamtök, aðilar tengdir þeim eða aðilar sem draga taum tiltekinna stjórnmálaafla, geta beitt sér með óprúttnum hætti án þess að kjósendur geti áttað sig á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunna að búa að baki.

Þá þurfi að gæta að því að reglur sem eigi að tryggja gegnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi virki eins og til er ætlast. Sama kunni að eiga við um herferðir í þágu tiltekinna málefna án þess að þær tengist tilteknum stjórnmálasamtökum. Þá væri æskilegt að í gildi væru reglur um pólitískar auglýsingar, ekki síst í aðdraganda kosninga, og óháð miðlunarformi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert