Það er mikið líf á Alþingi þessa stundina enda allt kapp lagt á að ljúka þingstörfum á morgun þrátt fyrir að fjöldi mála sé enn á dagskrá þingsins. Þegar asinn er jafnmikill og raun ber vitni skyldi engan undra að mönnum verði á í messunni einstöku sinnum.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, deilir myndbandi á Facebook-síðu sinni sem sýnir hann hrasa á leið sinni um þingsalinn fram hjá ræðupúltinu í umræðum um bann við frammistöðubætandi efnum. Páll veit upp á sig sökina en hann segist hafa brotið þá venju að ganga ekki milli ræðustóls og forsetastóls á leið um þingsalinn.
Þingfundum er, sem þekkt er, sjónvarpað á Alþingisrásinni og á heimasíðu þingsins og náðist uppákoman því á filmu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, flokkssystir Páls og „meinhorn“ að hans sögn, klippti til myndband af atvikinu, sem Páll setti síðan á Facebook.