4 lögreglubílar skemmdir eftir eftirför

Eftirförin endaði í Breiðholti með því að lögreglan og sérsveitin …
Eftirförin endaði í Breiðholti með því að lögreglan og sérsveitin óku framan á bílinn. mbl.is

Fjórir lögreglubílar eru skemmdir eftir eftirför í austurborginni um kvöldmatarleytið í kvöld, sem lauk með því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra handtóku ökumann bíls fyrir utan Garðheima í Breiðholtinu nú í kvöld.

Upphaf málsins var að lögreglan hugðist stöðva för ökumanns sem var á númerslausri bifreið á Víkurvegi í Grafarvogi um sjöleytið í kvöld. Sá sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu, heldur ók á brott á miklum hraða.

Honum var fylgt eftir af lögreglu og sérsveit áður en var að endingu stöðvaður í Mjóddinni með því að lögreglubílum var ekið í veg fyrir bíl hans. Mikill viðbúnaður var á svæðinu og var götum í grenndinni lokað á meðan á þessu stóð.

Ökumaðurinn, sem er 17 ára, var einn í bílnum. Var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar, en talið er að meiðsli hans séu minni háttar. Ekki er ljóst hvað hinum unga ökumanni gekk til en hans bíður nú yfirheyrsla hjá lögreglu, að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Tvær lögreglubifreiðanna eru hins vegar óökuhæfar eftir eftirförina og sama á við um bíl piltsins.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu og var götum í grenndinni …
Mikill viðbúnaður var á svæðinu og var götum í grenndinni lokað á meðan á þessu stóð. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert