84 frumvörp urðu að lögum

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Ófeigur

Alls urðu 84 frumvörp að lögum á nýafstöðnu löggjafarþingi, auk þess sem Alþingi samþykkti 29 ályktanir. Þetta kom fram í ávarpi Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við frestun þingfunda í nótt.

Hann sagði þingið hafa verið fremur stutt. Það hafi ekki komið saman fyrr en 14. desember, að loknum alþingiskosningum, þremur mánuðum síðar en reglulegt þinghald krefjist venjulega. Þar að auki hafi verið gert rúmlega hálfs mánaðar hlé vegna sveitarstjórnarkosninga.

„Eins og við er að búast hafa störf þingsins mótast af þessum aðstæðum. Ríkisstjórnin hafði skemmri tíma til að undirbúa mál fyrir Alþingi en ella hefði verið. Þingmálaskrá ríkisstjórnar sem lögð var fram í upphafi þings var því í reynd yfirlit yfir mál sem voru í vinnslu og kynnu að koma fyrir þingið fremur en raunhæfur verkefnalisti,“ sagði Steingrímur.

Hann benti á að störf þingsins hafi mótast af þessum aðstæðum og að ríkisstjórnin hafi haft skemmri tíma til að undirbúa mál fyrir Alþingi en ella.

„Þessar aðstæður hafa líka sýnt betur en annað að bæta þarf samskipti ríkisstjórnar og Alþingis við framlagningu stjórnarmála,“ sagði hann.

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Eggert

Einnig nefndi Steingrímur að taka þurfi til endurskoðunar skipulag þingstarfanna og starfshætti á Alþingi, meðal annars til að auka fyrirsjáanleika í störfum þingsins.

Steingrímur lýsti jafnframt yfir ánægju sinni með breytingar sem voru samþykktar á siðareglum Alþingis og einnig með rakarastofumálþing á Alþingi í febrúar um ofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna.

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann ræddi einnig fund Alþingis á Þingvöllum í sumar í tilefni fullveldisafmælis Íslands og nýja skrifstofubyggingu Alþingis en lokahönnun hennar er að hefjast.

„Þessi nýja bygging mun hafa í för með sér gríðarlega breytingu á starfsaðstöðu þingmanna og starfsmanna, nefndanna og raunar þingsins alls. Þegar við bætast þeir fjármunir sem nú hafa verið tryggðir í fjárlögum yfirstandandi árs og í nýsamþykktri fjármálaáætlun til næstu fimm ára til að efla nefndasvið Alþingis og aðra stoðþjónustu, bæta afkomu þingflokka og auka aðstoð við þingmenn tel ég alla ástæða til að horfa bjartsýnn fram á veginn fyrir hönd Alþingis,“ sagði hann.

Ávarp Steingríms: 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert