Páli Magnússyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur verið vikið úr fulltrúaráði Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum. Fulltrúaráðið hefur jafnframt lýst yfir fullu vantrausti á Pál vegna framgöngu hans í aðdraganda nýliðinna sveitarstjórnarkosninga. Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðsins, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Við kjósum í fulltrúaráðið en hann var ekki á þeim lista sem var nú borinn upp til atkvæða. Það samþykktu allir fundarmenn að hafa hann ekki á listanum. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti í sögunni sem þingmaður úr heimabænum er ekki í fulltrúaráði, enda er þetta eflaust í eina skipti í sögu stjórnmála sem oddviti flokksins styður ekki sinn flokk í sveitarfélaginu,“ segir Jarl.
Páll lýsti ekki yfir stuðningi við lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum fyrir kosningar og því hefur verið haldið á lofti að hann hafi stutt Írisi Róbertsdóttur, oddvita klofningsframboðsins Fyrir Heimaey, sem vann góðan sigur og myndaði nýjan meirihluta með Eyjalistanum. Þeim er vel til vina og hafa setið saman í stjórn ÍBV, að kom fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið í síðustu viku.
Fulltrúaráðið kom saman á aukaaðalfundi í kvöld þar sem ákvörðunin var tekin og ályktun samþykkt. Í henni segir segir meðal annars: „Fulltrúaráðið getur ekki litið á þingmanninn sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins og óskar eftir fundi með forystu flokksins vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin.“
Fundurinn var haldinn í þeim tilgangi að taka til í fulltrúaráðinu, að sögn Jarls, enda nokkrir í ráðinu sem voru í framboði fyrir eða studdu klofningsframboðið Fyrir Heimaey. „Það þurfti aðeins að taka til og endurraða í fulltrúaráðið. Við notuðum tækifærið líka til að koma þessum skilaboðum á framfæri að við værum ósátt við framgöngu Páls. Við þurfum að hafa fulltrúaráðið með fólki sem er algjörlega okkar.“
Ekki náðist í Pál Magnússon við vinnslu fréttarinnar.
Ályktun fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum í heild sinni:
„Vegna fordæmalausrar framgöngu oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum lýsir aukaaðalfundur fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum fullu vantrausti á 1. þingmann Suðurkjördæmis, Pál Magnússon. Fulltrúaráðið getur ekki litið á þingmanninn sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins og óskar eftir fundi með forystu flokksins vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin.“