Páli vikið úr fulltrúaráðinu í Eyjum

Fulltrúaráðið lýsir yfir fullu vantrausti á Pál Magnússon.
Fulltrúaráðið lýsir yfir fullu vantrausti á Pál Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páli Magnús­syni, odd­vita Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi, hef­ur verið vikið úr full­trúaráði Sjálf­stæðis­fé­lags­ins í Vest­manna­eyj­um. Full­trúaráðið hef­ur jafn­framt lýst yfir fullu van­trausti á Pál vegna fram­göngu hans í aðdrag­anda nýliðinna sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga. Jarl Sig­ur­geirs­son, formaður full­trúaráðsins, staðfest­ir þetta í sam­tali við mbl.is.

„Við kjós­um í full­trúaráðið en hann var ekki á þeim lista sem var nú bor­inn upp til at­kvæða. Það samþykktu all­ir fund­ar­menn að hafa hann ekki á list­an­um. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti í sög­unni sem þingmaður úr heima­bæn­um er ekki í full­trúaráði, enda er þetta ef­laust í eina skipti í sögu stjórn­mála sem odd­viti flokks­ins styður ekki sinn flokk í sveit­ar­fé­lag­inu,“ seg­ir Jarl.

Páll lýsti ekki yfir stuðningi við lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Vest­manna­eyj­um fyr­ir kosn­ing­ar og því hef­ur verið haldið á lofti að hann hafi stutt Írisi Ró­berts­dótt­ur, odd­vita klofn­ings­fram­boðsins Fyr­ir Heima­ey, sem vann góðan sig­ur og myndaði nýj­an meiri­hluta með Eyjalist­an­um. Þeim er vel til vina og hafa setið sam­an í stjórn ÍBV, að kom fram í um­fjöll­un Frétta­blaðsins um málið í síðustu viku.

Full­trúaráðið kom sam­an á aukaaðal­fundi í kvöld þar sem ákvörðunin var tek­in og álykt­un samþykkt. Í henni seg­ir seg­ir meðal ann­ars: „Full­trúaráðið get­ur ekki litið á þing­mann­inn sem trúnaðarmann Sjálf­stæðis­flokks­ins og ósk­ar eft­ir fundi með for­ystu flokks­ins vegna þeirr­ar al­var­legu stöðu sem upp er kom­in.“

Fund­ur­inn var hald­inn í þeim til­gangi að taka til í full­trúaráðinu, að sögn Jarls, enda nokkr­ir í ráðinu sem voru í fram­boði fyr­ir eða studdu klofn­ings­fram­boðið Fyr­ir Heima­ey. „Það þurfti aðeins að taka til og end­urraða í full­trúaráðið. Við notuðum tæki­færið líka til að koma þess­um skila­boðum á fram­færi að við vær­um ósátt við fram­göngu Páls. Við þurf­um að hafa full­trúaráðið með fólki sem er al­gjör­lega okk­ar.“

Ekki náðist í Pál Magnús­son við vinnslu frétt­ar­inn­ar.

Álykt­un full­trúaráðs Sjálf­stæðis­fé­lags­ins í Vest­manna­eyj­um í heild sinni:

„Vegna for­dæma­lausr­ar fram­göngu odd­vita Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi í nýliðnum sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um lýs­ir aukaaðal­fund­ur full­trúaráðs Sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Vest­manna­eyj­um fullu van­trausti á 1. þing­mann Suður­kjör­dæm­is, Pál Magnús­son. Full­trúaráðið get­ur ekki litið á þing­mann­inn sem trúnaðarmann Sjálf­stæðis­flokks­ins og ósk­ar eft­ir fundi með for­ystu flokks­ins vegna þeirr­ar al­var­legu stöðu sem upp er kom­in.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert