Dragdrottningin Gógó Starr fjallkonan í ár

Gógó Starr dragdrottning.
Gógó Starr dragdrottning. mbl.is/Eggert

Dragdrottningin Gógó Starr mun fara með hlutverk fjallkonunnar á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Aldrei áður hefur dragdrottning gegnt hlutverki fjallkonunnar en í ár verða þær í fyrsta sinn tvær við hátíðarhöldin í Reykjavík.

„Ég verð fjallkonan í skrúðgöngunni og svo les önnur fjallkona ljóðið,“ segir Sigurður Heimir Guðjónsson, annað sjálf Gógó Starr, í samtali við blaðamann mbl.is.

Sigurður sagði við Gay Iceland að þetta væri merki um að þjóðfélagið sé að verða sífellt opnara fyrir drag-senunni og hinsegin menningu. Í fyrra varð Eva Ágústa Aradóttir fyrsta transkonan á Íslandi til þess að leysa hlutverk fjallkonunnar úr læðingi við hátíðarhöld Hafnafjarðarbæjar.  

Sigurður Heimir segist vera gríðarlega spenntur fyrir sunnudeginum en hann hefur lengi dreymt um að vera fjallkonan. Gógó Starr mun leiða skrúðgönguna ásamt borgarstjóra og fleiri ráðamönnum og leikkona les svo ljóð við hátíðardagskrá á Austurvelli samkvæmt hefð.

Skrúðgangan hefst stundvíslega kl. 13 og leggur af stað frá horni Laugavegar og Snorrabrautar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert